Tiltekt gengur vel í Kölku
Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku síðastliðin tvö ár. Eftir áralanga skuldasöfnun var hagnaður um 225 milljónir á árinu 2011 en mikil endurskipulagning hefur staðið yfir undanfarin tvö ár. Ríkharður Ibsen, stjórnarformaður Kölku svaraði spurningum Víkurfrétta en miklar umræður hafa verið síðustu daga um tilboð bandarísks fyrirtækis í Kölku sem vill greiða hátt verð fyrir stöðina og flytja inn sorp frá Bandaríkjunum til brennslu í Helguvík.
Nú hefur mikil umræða farið af stað um Kölku. Ljóst er að fjárhagsvandi hefur verið verulegur frá byggingu stöðvarinnar árið 2004. Hver er staða fyrirtækisins?
Það voru ærin verkefni sem biðu nýrrar stjórnar þegar hún tók við í ágúst 2010. Söluferli stöðvarinnar hafði siglt í strand og allt það ferli staðið í vegi fyrir endurskipulagningu í rekstrinum. Þá var einmitt um að ræða erlenda aðila sem ætluðu sér að flytja inn spilliefni til brennslu. Maður spyr sig: Hvar var umræðan þá? Heildarskuldir námu um 1,3 milljörðum og eigið fé neikvætt upp á um 600 milljónir. Ljóst var að uppsafnaður vandi frá upphafi reksturs í Helguvík var mikill. Frá því að rekstur hófst hafði verið samfellt tap í 6 ár. 2004 var tap ársins um 4 milljónir. 2005 var tap ársins um 66 milljónir. Árið 2006 var tap ársins um 202 milljónir. 2007 var tap ársins um 50 milljónir. 2008 var tap ársins um 597 milljónir. 2009 var tap ársins um 101 milljón. Og rekstrartapið hljóp á tugum milljóna meira og minna allt tímabilið. Þannig að staðan var mjög erfið og margir lausir endar í félaginu. Þess verður þó að geta að erlendar skuldbindingar stöðvarinnar hækkuðu um tæplega 460 milljónir króna á milli áranna 2007 og 2008.
Hrunið hafði sitt að segja um skuldastöðuna en hvernig hefur verið tekið á fjármálum og stjórn fyrirtækisins?
Verkefnið var og er að endurskipuleggja starfsemina með það að markmiði að bæta rekstrarafkomu og fjárhagsstöðu. Mikil vinna hefur farið fram og stendur enn yfir. Búið er að fara í miklar hagræðingaraðgerðir þar sem kostnaður hefur lækkað töluvert og tekjur aukist, breyta skipuriti stöðvarinnar, sameina stöðugildi og ný yfirstjórn hefur tekið til starfa. Búið er að færa yfirstjórnina alla út í Helguvík en áður var sú starfsemi á tveimur stöðum og auka nýtingarhlutfall stöðvarinnar sem er í dag um 80% – brennd voru um 9.800 tonn 2011. Samvinna við lánardrottna hefur gengið mjög vel og skuldir hafa lækkað þó nokkuð í samræmi við árangur endurskipulagningarferilsins. Fjármagnskostnaður hefur lækkað og búið er að semja um erlendar skuldbindingar félagsins. Niðurstaðan er skýr – það er búið að hreinsa til og árangurinn má lesa út úr uppgjörstölum Kölku: Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði árið 2010 var 45 milljónir og hagnaður ársins 44 milljónir. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði árið 2011 var um 85 milljónir og hagnaður ársins um 225 milljónir. Skuldir hafa lækkað úr um 1.300 milljónum niður í um 950 milljónir og neikvætt eigið fé hefur lækkað um meira en helming. Þannig að það má segja að endurskipulagningarferlið sé meira en hálfnað. En betur má ef duga skal. Það þarf að breyta neikvæðu eigin fé í jákvætt. Markmiðið er vitanlega að reksturinn verði sjálfbær.
Nú tók nýr framkvæmdastjóri við á síðasta ári – hvernig hefur hann staðið sig?
Jón Norðfjörð tók til starfa í júlí á síðasta ári og hefur komið mörgum góðum breytingum til leiðar sem hafa skilað sér í betri afkomu. Helstu áhersluatriði stjórnar við mat á hæfnisþáttum í ráðningarferli framkvæmdastjóra voru reynsla af stjórnun og fyrirtækjarekstri ásamt reynslu af breytingastjórnun eða endurskipulagningu fyrirtækja. Jón er hokinn af reynslu á þessum vígvelli eins og flestir þekkja og hefur það nýst fyrirtækinu afar vel. Einnig vil ég bæta því við að starfsmenn stöðvarinnar hafa staðið sig virkilega vel og samstarfið í stjórninni hefur verið með ágætum.
Nú kom mikil umræða um Kölku í kjölfar tilboðs bandarískra aðila í stöðina. Hvernig verður tilboðið afgreitt?
Okkur barst þetta tilboð frá Triumvirate Environmental upp á um 1.250 milljónir íslenskra króna en bókfært virði stöðvarinnar er um 640 milljónir. Þeir hafa látið í veðri vaka að þeir vilji flytja inn sambærilegt sorp og við erum að brenna í dag – og þannig fylla upp í nýtingarhlutfallið og jafnvel ráðast í stækkun. Eðlilega verða þeir að fylgja lögum og reglum og fá tilskilin leyfi frá Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun til þess að svo megi verða. Stjórn Kölku situr í nafni sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem eru eigendur stöðvarinnar – okkar niðurstaða var því einföld: Við vísuðum málinu til sveitarstjórna í hverjum ranni fyrir sig til umræðu og ákvarðanatöku.
Þetta tilboð hljómar ekki vel í eyrum fólks. Að flytja sorp frá Bandaríkjunum til brennslu á Íslandi. En hér koma miklir peningar vissulega til skjalanna.
Fulltrúar Triumvirate Environmental eru að tala um að brenna sambærilegt sorp og við erum að brenna í dag. Í þessu samhengi má líka benda á að stöðin var byggð að hluta til vegna Bandaríkjahers og við brenndum bandarískt sorp til fjölda ára. Ennfremur má benda á að Bandaríkjamenn senda sorp til margra Evrópulanda til brennslu í dag. Við Íslendingar sendum líka spilliefni úr landi til förgunar og urðunar í Evrópu og einnig má benda á að brennslur í Skandinavíu hafa verið að kaupa sorp í miklu magni frá Mið-Evrópu sem hefur verið brennt til orkuframleiðslu. Auðvitað verður að skoða þetta í réttu samhengi og ekki aðeins festa augun við eitt sjónarhorn. Ef þessir aðilar fá leyfi frá viðkomandi stofnunum og fylgja vitanlega öllum lögum og reglum og lækka mögulega sorpkostnað sveitarfélaganna er vert að skoða málið. Það er í höndum sveitarstjórna á Suðurnesjum.
Hvað með sorpbrennslu fyrir svæðið ef ákveðið verður að selja fyrirtækið?
Triumvirate hefur byggt sitt tilboð á því að þeir brenni áfram sorpi fyrir sveitarfélögin á svæðinu til einhvers umsamins tíma. Jafnvel er inni í myndinni að kostnaður sveitarfélaganna gæti lækkað. Aðlögunartíminn er væntanlega samkomulagsatriði. Annars er staðreyndin sú að í dag er urðun mun ódýrari kostur fyrir sveitarfélögin. En þetta er allt fljótt að breytast – það stóð nú til á sínum tíma að banna urðun í landinu.
Ef tilboði Bandaríkjamanna verður ekki tekið, hvernig sérðu þá fyrir þér rekstur stöðvarinnar á næstu árum með þennan skuldahala?
Við höldum þá áfram á sömu braut. Þetta er fullkomnasta brennslustöð landsins og býr yfir mikilli sérstöðu. Við höfum leitað leiða til að fylla upp í nýtingarhlutfallið með meira magni af úrgangi sem falla undir hærri gjaldskrárliði eins og t.d. spilliefni, mengaður úrgangur, lífrænn úrgangur, sjúkrahúsasorp, flugvélasorp og skipasorp. Okkur hefur orðið nokkuð ágengt og þar höfum við skapað tekjur sem hlaupa á tugum milljóna. Sú endurskipulagningarvinna sem er í gangi krefst mikillar lagni til þess að ná meiri framlegð með aukinni sorpbrennslu einni og sér. Triumvirate er einmitt að horfa í það að fylla upp í þetta gat í nýtingarhlutfallinu með slíku sorpi. Ég tel að hægt sé að hagræða enn frekar í rekstrinum og einnig vonumst við til að lánardrottnar komi betur til móts við okkur. Ef salan gengur ekki í gegn þá eru þrjár aðrar leiðir til að ná niður skuldum; hagræðing með betri rekstrarafkomu, leiðrétting eða niðurfelling skulda eða að leggja félaginu til aukið eigið fé.
Nú hefur borið á því að menn hafa kastað rusli á Miðnesheiði – telur þú að það eigi rætur að rekja til gjaldheimtu á gámaplönum?
Það hefur verið gjaldtaka á endurvinnsluplönum hjá Sorpu og víðar á landinu til fjölda ára með góðum árangri. Hugsun okkar með þessu er að þeir sem nota umframþjónustu greiði fyrir hana. Það verður að gera greinarmun á aðila sem kemur með mikið magn og hins sem fyllir eina tunnu á 10 dögum. Hér áður voru brögð að því að menn keyrðu með heilu bílfarmana frá höfuðborgarsvæðinu til að losa frítt á okkar endurvinnsluplönum. Ljóst má vera að venjulegt sorp í hóflegu magni, garðaúrgangur og mörg fleiri úrgangsefni eru gjaldfrjáls á endurvinnsluplönum Kölku og mjög hóflegt gjald er tekið fyrir ákveðin úrgangsefni. Þessi umræða hefur verið á villigötum að mörgu leyti og manni finnst það heldur kaldhæðnislegt þegar menn henda ljósritunarvélum í túnfæti Kölku þegar hægt er að koma með öll raftæki til förgunar án endurgjalds. En svona breytingar ganga svo sem aldrei áfallalaust fyrir sig og við vorum fyllilega meðvituð um það.
Nú hafa verið misjöfn viðbrögð við breyttri gjaldskrá.
Eftir mikla vinnu og samanburðargreiningu á markaðnum var okkar gjaldskrám breytt. Það er reyndar mikill munur á gjaldskrárliðum hvað hækkanir varðar. Gjaldskrám hafði ekki verið breytt í tæp tvö ár og ljóst að reksturinn komst ekki upp með óbreytt ástand. Auk þess hafði ekki verið tekið tillit til kostnaðar Kölku við brennslu á mörgum úrgangsefnum. Þegar fólk kynnir sér gjaldskrár okkar þá sér það að um hóflegt gjald er að ræða. En varðandi þann möguleika að fólk hendi rusli á víðavangi þá verður auðvitað hver að taka ábyrgð á sínum gjörðum. Við teljum að slíkt muni ekki verða viðvarandi vandamál þegar aðilar hafa kynnt sér málin. Á heimasíðu Kölku www.kalka.is má finna allar upplýsingar um gjaldskrár, opnunartíma og sorphirðudagatal fyrir öll Suðurnesin.
Askan, úrgangurinn úr brennslunni í Kölku er uppsafnaður vandi í orðsins fyllstu merkingu. Hvað geturðu sagt okkur um þann þátt og þann möguleika að nýta öskuna í eitthvað annað en að flytja hana með skipum til útlanda?
Fyrst verður að koma því á framfæri að askan frá brennslunni skiptist í botnösku og flugösku (eða svifösku). Askan er í heild um 20% af upprunalegri þyngd sorpsins. Töluvert meira fellur til af botnösku eða um 17% á meðan um 3% kemur til vegna flugösku. Þegar búið er að segla málma úr botnöskunni fer hún í fyllingarefni s.s. eins og í jarð- eða hafnagerð eða til urðunar, en það er þessi fína aska sem við köllum flugösku sem er vandamálið. Já, og þessi flugaska er uppsafnaður vandi sem fylgdi með rekstrinum þegar við tókum við. Við höfum kannað margar leiðir til að finna lausn á vandanum. M.a. hafa menn skoðað leiðir til að minnka umfang öskunnar með efnaferlum. Kannað hefur verið hvort flugaskan geti verið nýtt sem fylling í eldvarnarhurðir og til íblöndunar í steypu. Nýjasta mögulega hugmyndin að lausn er komin frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands en það er að nýta flugöskuna í malbik. Ljóst má vera að við munum áfram reyna að kanna allar mögulegar leiðir til að nýta öskuna en við höfum einnig farið í gegnum það ferli að urða hana erlendis, vitanlega með tilheyrandi kostnaði. Ef það yrði niðurstaðan þá værum við að flytja spilliefni til urðunar í öðru landi. Það er eitthvað sem mætti hugsa í samhengi við innflutning á úrgangi erlendis frá til brennslu hér.
Viðtal og mynd: [email protected]