Þóranna nýr markaðs- og kynningarstjóri SVÞ
Þóranna K. Jónsdóttir hefur tekið við starfi markaðs- og kynningarstjóra SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu. Starfið er nýtt og merki um þá áherslu sem Samtökin leggja á öfluga upplýsingamiðlun og notkun stafrænna miðla. Viðskiptablaðið greinir frá þessu.
Þóranna hefur verið sjálfstætt starfandi markaðsráðgjafi um árabil með áherslu á stefnumótun markaðsmála og stafræna markaðssetningu. Þóranna hefur starfað með fjölbreyttum hópi fyrirtækja svo sem AwareGO, Gagarín, Opna háskólanum, Sóley Organics, SimplyBook.me, RóRó o.fl. Hún hefur verið virk í sprota- og nýsköpunarumhverfinu og hefur m.a. starfað með Nýsköpunarmiðstöð, verið mentor hjá Icelandic Startups o.fl. Áður starfaði Þóranna sem verkefnastjóri hjá Kadeco, rak eigið fyrirtæki í upplýsingatækniþjónustu, í markaðsmálum hjá Sparisjóðnum, hjá auglýsingastofunni Góðu fólki og hjá auglýsingastofunni Publicis í London. Hún er með MBA gráðu með áherslu á stefnumótun markaðsmála frá University of Westminster í London og er vottaður sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu frá DigitalMarketer.