Tékkneskt félag flýgur fyrir Iceland Express
Gengið hefur verið frá samkomulagi við tékkneska félagið CSA Holidays, sem er í eigu CSA Airlines, um flug fyrir Iceland Express frá og með mánudeginum 21. nóvember. Samstarfi við breska flugfélagið Astreus er lokið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express sem vitnað er til á mbl.is.
Þar segir að ekki sé gert ráð fyrir neinni röskun á áætlunarflugi Iceland Express vegna þessarar breytingar sem sé liður í víðtækri endurskipulagningu sem nýir stjórnendur félagsins hafi ráðist í til aukinnar hagræðingar og bættrar þjónustu.
Segir að CSA Holidays og móðurfélag þess CSA Airlines séu með virtustu flugfélögum í Evrópu og hafi verið í fremstu röð hvað stundvísi varðar síðastliðin tíu ár. Samtök flugfélaga í Evrópu, Association of European Airlines, hafi útnefnt CSA stundvísasta flugfélag Evrópu af 26 stærstu flugfélögum álfunnar á árinu 2010 og allt bendir til þess að félagið muni varðveita þann sess á yfirstandandi ári.