Tafir á fjármögnun kísilvers Thorsil
Fjármögnun á kísilveri Thorsil í Helguvík mun tefjast en að öllum líkindum ljúka á næstu vikum. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu. Áður hafði Viðskiptablaðið greint frá því að til stæði að ljúka við fjármögnun verksmiðjunnar síðasta sumar. Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að samningagerð hafi tekið lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir. Bankar geri ríka kröfu um að allar ábyrgðir séu í lagi og það taki tíma að klára slík mál. Haft er eftir honum að erfitt sé að segja til um það nákvæmlega hvenær fjármögnun verði lokið en gangi hún samkvæmt áætlun verði það á næstu vikum.
Áætlað er að kostnaður við byggingu verksmiðju Thorsil í Helguvík verði um 32 milljarðar og að hún taki til starfa í lok árs 2018.