Tækifærin eru endalaus
- Keilir er góður efniviður í fagháskóla sem auka sóknartækifæri hans og efla sjálfstæði skólans
„Tækifærin fyrir Keili til framtíðar eru endalaus,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Keilir er 9 ára í dag. Nú er verið að vinna að því að hálfu menntamálaráðuneytis og atvinnulífsins að koma á koppinn því sem heitir fagháskóli, sem er millistig milli framhaldsskóla og rannsóknarháskóla, eins og Háskóla Íslands.
Hjálmar segir að Keilir sé hugsaður upphaflega sem fagháskóli. „Ef hann er að fara að vera til í lögum þá mun það auka sóknartækifæri Keilis og efla sjálfstæði hans. Á sama tíma teljum við mjög mikilvægt að vinna með öðrum skólum eins og við höfum verið að gera, m.a. með því að sækja það besta til þeirra sem eru bestir á sínu sviði. Með því að horfa stöðugt í kringum sig eftir tækifærum, þá sé ég ekki annað en að Keilir eigi eftir að vaxa og dafna áfram,“ segir Hjálmar
1400 með skírteini frá Háskólabrú Keilis
Þegar menn stóðu uppi með heilan mannlausan draugabæ á Miðnesheiði sem áður hýsti um 6000 manns, þá var spurningin hvað á að gera. Markmiðið varð að byggja hér upp þekkingarþorp. Fyrir þekkingu þarf menntun og fyrir menntun þarf skóla. Það varð fyrsta ákvörðunin fyrir svæðið, sem síðar fékk nafnið Ásbrú, að stofna þar skóla og þá kom spurningin - hvernig skóla? Markmiðið varð annars vegar að efla menntastig á svæðinu og hins vegar að fylla upp í göt í atvinnulífinu og nóg er af þeim þegar tengsl skóla og atvinnulífs eru til umræðu.
Eins og kemur fram hér að framan þá fagnar Keilir í dag 9 ára afmæli og Háskólabrú Keilis var það fyrsta sem skólinn tók sér fyrir hendur. Það var með það að markmiði að efla menntastig. „Núna níu árum síðar getum við sagt að 1400 manns hafi farið frá Keili með skírteini frá Háskólabrú. Langflestir þeirra hafa haldið áfram í háskólanámi,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis. Þeir fyrstu eru komnir út á vinnumarkað, ýmist með BS-, BA- eða meistarapróf. Sumir eldri nemendur Keilis eru þegar farnir að vinna sem sérfræðingar á ýmsum sviðum.
Að gefa fólki annað tækifæri
„Við fylgjumst vel með þessum hópi og sjáum ekki annað en að hann hafi plummað sig mjög vel,“ segir Hjálmar. Hann bætir því við að það markmið að efla menntastig og að gefa fólki aukin tækifæri hafi tekist vel. „Okkur starfsfólki Keilis finnst þetta sá þáttur sem við erum hvað ánægðust með þegar horft er yfir sviðið, að gefa fólki annað tækifæri og aðstoða við það og taka þátt í gleði þess,“ segir Hjálmar og bætir við að útskriftarathafnir á Háskólabrúnni oft mjög tilfinningaríkar.
Hjálmar segir að Keilir hafi breytt miklu fyrir fólk þegar Hrunið varð og atvinnuleysi varð mikið. „Þá varð þetta spurning hjá mörgum að afla sér menntunar frekar en að sitja heima í iðjuleysi og leiðindum. Keilir varð einn þeirra skóla sem gerði samning við Vinnumálastofnun sem greiddi fólki fyrir að fara í nám í stað þess að sitja heima og brotna niður.
„Við vorum afskaplega stolt af því að brottfall í því átaki var langminnst allra skóla hjá okkur í Keili af öllum þeim skólum sem tóku þátt í þessu. Við viljum þakka það, og vísum þar í umsagnir nemenda okkar, að það eru þessir nýju kennsluhættir sem við tókum upp og erum leiðandi í. Við teljum að við höfum haft mikil áhrif í að innleiða vendinámið. Hér hafa verið tvær alþjóðlegar ráðstefnur um vendinámið, hingað hafa komið 1000 kennarar til að kynna sér þessa kennsluhætti. Þá hafa okkar kennarar farið í skóla út um allt land til að kynna vendinámið. Þá höfum við verið að leiða stórt verkefni með sjö evrópskum skólum sem er að ljúka um þessar mundir. Við vonumst til að verkefnið haldi áfram og verði enn stærra. Við teljum að þessir kennsluhættir hafi orðið til þess að fólk hafi fundið sig sæmilega vel í námi við Keili“.
Nám í nánum tengslum við atvinnulífið
Hjá Keili hefur verið lögð áhersla á nám í nánum tengslum við atvinnulífið. Þar hefur Flugakademía Keilis komið sterkt inn. Þar var byrjað smátt með tvær litlar vélar en nýtískulegar.
Í Hruninu var lítið að gera fyrir flugmenn en Hjálmar segir að við þær aðstæður eigi fólk að nota tímann til að mennta sig. „Í kreppu er það flugið sem fyrst finnur fyrir niðursveiflunni en er einnig fyrst til að rétta úr kútnum og nákvæmlega það hefur gerst. Nú er spáin sú fyrir flugskóla heimsins að flugskólar munu ekki hafa undan að framleiða flugmenn, hvað þá flugvirkja og við verðum vör við það hér hjá okkur. Í dag eigum við níu nýjar flugvélar plús sex aðrar eldri sem við keyptum þegar við tókum við Flugskóla Helga Jónssonar. Þá erum við með glæsilegan flughermi og það er ekkert lát á aðsókn að flugnáminu,“ segir Hjálmar.
Fyrsti erlendi flugnemandinn kom frá Möltu og hægt og rólega hefur flugnámið undið upp á sig. Í dag eru erlendir nemar um 70 talsins og flestir þeirra koma frá Skandinavíu. Erlendu flugnemarnir eru að færa um hálfan milljarð króna inn í efnahagskerfi Suðurnesja á ári. Fjármunirnir fara í húsaleigu, mat, djamm, rekstur bifreiða o.s.frv. Hjálmar segir þetta eitt af markmiðum Keilis, að fara í útflutning á menntun, bjóða upp á öflugt nám og koma íbúðum á Ásbrú í nýtingu.
Hjálmar segir sömu þróun vera að eiga sér stað í flugvirkjanáminu. Það er þegar orðið fullskipaður skólabekkur fyrir næsta vetur og fyrsti útlendingurinn hefur þegar skráð sig til náms og gert er ráð fyrir að um 100 nemendur verði í flugvirkjanáminu á næstu misserum.
Námi í ævintýraleiðsögn var komið í í Keili því ferðaþjónustan kallaði eftir slíku námi og þjálfuðu fólki til að fara með ferðamenn í adrenalínferðir um landið. Námið hefur lítið verið auglýst erlendis en þrátt fyrir það eru komnar tólf umsóknir erlendis frá fyrir næsta skólaár. Hjálmar segir gæði námsins vera unnin í samstarfi við virtan erlendan háskóla en íslensk náttúra sé einnig aðdráttarafl. Allt vettvangsnám fer fram í íslenskri náttúru og námið tekur mið af henni. Nemendur eru uppi á jöklum, á sjókajak og í jökulám, svo eitthvað sé nefnt. Nemendur eru m.a. að koma frá Noregi og Kanada sem munu nýta námið í sinni náttúru, sem er áþekk því sem hér þekkist.
Tæknifræðinámið við Keili sé ein mesta frumkvöðla- og hugmyndasmiðja á Suðurnesjum
Tæknifræðinámið við Keili er uppspretta nýsköpunar. Allir nemendur sem þar fara í gegn enda með einhver lokaverkefni sem eru ekkert annað en frumkvöðla- og nýsköpunarverkefni. „Þar kemur fram eitt af markmiðum Keilis að skapa atvinnutækifæri með nýsköpun. Þekktasta dæmið er örugglega hún Fida okkar sem er stanslaust að fá verðlaun og viðurkenningar og er eitt af mörgum stoltum okkar í Keili. Fyrirtæki hennar og Burkna er í því núna að ráða fólk og er orðið þekkt á landsvísu og er að fara að hasla sér völl erlendis. Ég vil meina það að tæknifræðinámið við Keili sé ein mesta frumkvöðla- og hugmyndasmiðja á Suðurnesjum. Síðan kemur þessi glæsilega aðstaða sem er hér uppi á Ásbrú þannig að nemendur sem ljúka námi hér geta leigt ódýrt húsnæði, hvort sem það er í Eldey eða Eldvörpum.
Keilir hefur boðið upp á einkaþjálfaranám sem er orðið landsþekkt og þar er ásóknin það mikil að ekki er hægt að taka inn alla sem vilja.
Keilir hefur byggt sig upp í gegnum árin á sérstöðu. Hann er framhaldsskóli og líka háskóli. Starfsleyfi skólans er fyrir framhaldsskóla og því hefur Keilir leitað eftir samstarfi við bestu háskólana á sínu sviði. Þannig er ævintýraleiðsögunámið kanadískt háskólanám í samstarfi við TRU, Thompson Rivers University, sem er fremstur í heiminum á því sviði.
Frábært starfsfólk
Hjálmar segir Keilisandann byggjast upp á frábæru starfsfólki sem hefur gaman af því sem það er að gera og hefur gaman af að fara ótroðnar slóðir, hefur gaman af að vinna með fólki og fyrir fólk og það er það sem Hjálmar telur að sé grunnurinn að öllu saman, ásamt góðum stuðningi aðstandenda Keilis og umhverfisins og ekki síst nærumhverfisins sem skólinn starfar í.
Viðtalið birtist fyrst í fréttablaði um Ásbrú sem gefið var út með Víkurfréttum 4. maí 2016