Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Taco Bell frá Varnarliðinu til Hafnarfjarðar
Miðvikudagur 16. ágúst 2006 kl. 14:04

Taco Bell frá Varnarliðinu til Hafnarfjarðar

Hafnfirðingar verða fyrstir í heiminum til þess að bragða á Taco Bell utan Bandaríkjanna eða bandarísks varnarsvæðis þegar skyndibitakeðjan hefur rekstur í húsi KFC í Hafnarfirði. Mikil eftirvænting og spenna ríkir eftir opnun staðarins meðal aðstandenda segir Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri KFC á Íslandi.

KFC eða Kentucky Fried Chicken hefur verið starfandi á Íslandi í 26 ár og lengst af í Hjallahrauni 15 í Hafnarfirði. Nú stendur til að tveir skyndibitastaðir opni í húsnæðinu að Hjallahrauni á tveimur hæðum þar sem notast verður við kjallara KFC í húsnæðinu fyrir annan staðinn. „Þetta er gert að bandarískri forskrift þar sem það færist nú í aukana hjá Bandaríkjamönnum að vera með svo kallaða 2 in 1 staði eða tvo matsölustaði í einu húsnæði og dæmi eru um að það séu jafnvel þrír matsölustaðir í einu húsnæði,“ sagði Kristín í samtali við Víkurfréttir.

Taco Bell var staðsett í nokkra mánuði á Keflavíkurflugvelli en staðnum var lokað í ljósi brotthvarfs Varnarliðsins. Skyndibitakeðjuna er eingöngu að finna í Bandaríkjunum eða á varnarstöðvum Bandaríkjanna víðs vegar um heiminn. Nú verður hins vegar breyting á og mun Taco Bell opna í húsi KFC í Hafnarfirði um miðjan nóvember á þessu ári. „Á meðan breytingum stendur mun KFC í Hafnarfirði loka í um tvær vikur,“ sagði Kristín sem verið hefur viðriðin rekstur KFC allt frá stofnun fyrirtækisins.

Taco Bell var stofnað í Bandaríkjunum um miðbik síðustu aldar af Glen Bell en fyrirtækið er í eigu YUM sem rekur m.a. staði á borð við KFC, Pizza Hut, Long John Silver og American Burger og skipta staðirnir þúsundum.

Hafnfirðingar fá því fyrstir allra Taco Bell utan Bandaríkjanna og ef vel tekst til gæti svo farið að fleiri Taco Bell staðir myndu rísa á Íslandi.

www.vikurfrettir.is


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024