Sýningin Reykjanes 2009 haldin í tengslum við Ljósanótt
Sýningin Reykjanes 2009 verður haldin í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ dagana 4.-6. september í tengslum við 10 ára afmæli Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar. Sýningin er haldin undir yfirskriftinni „þekking, orka, tækifæri“ og þar verður kynnt margt það helsta sem Reykjanes hefur upp á að bjóða í atvinnulífi, menningu og þjónustu.
Mörg af stærstu fyrirtækjum á svæðinu munu kynna starfsemi sína og þjónustu. Má þar til að mynda nefna samstarfsaðila sýningarinnar; Bláa lónið, Geysi Green Energy, Háskólavelli, HS Orku, KADECO – Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Keili, Norðurál og Sparisjóðinn í Keflavík, sem öll standa um þessar mundir að kröftugri uppbyggingu á Reykjanesi á einn eða annan hátt og munu á sýningunni kynna helstu verkefni sín og starfsemi auk fjölmargra annarra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á svæðinu.
Sýningin verður opnuð föstudaginn 4. september og megináhersla lögð á dagskrá fyrir fagaðila þann daginn. Almenningur verður boðinn velkominn alla sýningardagana og er aðgangur ókeypis. Auk kynninga á því sem helstu fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Reykjanesi hafa upp á að bjóða verða skemmtiatriði í tengslum við Ljósanótt. Sent verður beint út frá sýningunni á útvarpsstöðinni Bylgjunni föstudag og laugardag.
Kynningarfundur fyrir sýnendur verður haldinn í Íþróttaakademíunni föstudaginn 21. ágúst kl. 09:00. Vefsvæði sýningarinnar má finna á slóðinni www.reykjanes2009.is.