Sýnendum á Reykjanesi 2009 fjölgar ört
Mikill áhugi er á þátttöku í sýningunni Reykjanes 2009, sem haldin verður í Reykjaneshöllinni dagana 4.-6. september í tengslum við 10 ára afmæli Ljósanætur, og fjölgar sýnendum ört þessa dagana. Enda ekki að furða því auk þess að veita fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að hitta tugþúsundir gesta Ljósanætur mun sýningin beina kastljósi fjölmiðla að Reykjanesi og Ljósanótt.
Nú er orðið ljóst að Bylgjan verður með beina útsendingu frá sýningargólfi Reykjaness 2009 bæði föstudag og laugardag, þar sem dagskrárgerðarfólk mun meðal annars fjalla um sýninguna og það sem þar ber fyrir augu. Á föstudagskvöldinu verður Ísland í dag á Stöð 2 auk þess með beina útsendingu frá sýningargólfi Reykjaness 2009, þar sem m.a. verður frumflutt Ljósanæturlagið 2009 og sýnt frá sýningunni.
Það er því óhætt að segja að Reykjanes 2009 verður einn af miðdeplum Ljósanætur þetta árið og því spennandi vettvangur fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja koma vörum sínum og þjónustu á framfæri.
Sýningin er haldin undir yfirskriftinni „þekking, orka, tækifæri“ og þar verður kynnt það helsta sem Reykjanes hefur upp á að bjóða í atvinnulífi, menningu og þjónustu. Stefnt er að því að sýningin verði sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið á Reykjanesi og hafa viðtökur fyrirtækja og stofnana á svæðinu við þessari nýbreytni verið góðar. Sala sýningarrýma er nú í fullum gangi og er mikill hugur í sýnendum sem þegar hafa skráð sig til þátttöku.
Sýningin verður opnuð föstudaginn 4. september og megináhersla lögð á dagskrá fyrir fagaðila þann daginn. Almenningur verður boðinn velkominn alla sýningardagana og er aðgangur ókeypis. Auk kynninga á því sem helstu fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Reykjanesi hafa upp á að bjóða verða skemmtiatriði á sviði sýningarinnar í tengslum við Ljósanótt, sem og valin atriði frá sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Sýningin er haldin af Reykjanesbæ sem hefur gert samstarfssamning við AP almannatengsl um skipulagningu, kynningu og framkvæmd hennar. Öflugir samstarfsaðilar úr atvinnulífinu á Reykjanesi koma einnig að sýningunni; Bláa lónið, Geysir Green Energy, Háskólavellir, HS Orka, KADECO – Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Keilir, Norðurál og Sparisjóðurinn í Keflavík.
Vefsvæði sýningarinnar má finna á slóðinni www.reykjanes2009.is