Sumir fá vöðlur í jólagjöf
Veiðibúð Keflavíkur er við Hafnargötu en heildsalan Rapala ákvað að staðsetja fyrirtæki sitt hér suður með sjó en þeir eru einir af stærstu framleiðendum af fiskveiðivörum í heiminum. Verslunin er útibú frá Norðurlöndum en Rapala var stofnað í Finnlandi árið 1936. Sigurður Ásgeirsson er verslunarstjóri og Norðmaðurinn Egil Aagaard-Nilsen er umboðsaðili. Þeir eru báðir búsettir á Suðurnesjum.
Alþjóðlegt fyrirtæki við Hafnargötu
„Við einblínum á fiskveiðar, bæði sjó- og ferskvatnsveiðar. Hingað er vinsælt að koma til að kaupa gjafir handa veiðimanninum. Við erum með úrvals vörur frá einum stærsta framleiðanda í heimi á sviði frístundaveiða. Heildsalan Rapala ákvað að staðsetja okkur hér við Hafnargötuna og það gengur fínt. Við fluttum af höfuðborgarsvæðinu hingað suðureftir sem hentar okkur báðum betur en við erum búsettir hérna. Við erum að þjónusta allt landið héðan. Rapala er ein af vinsælustu beitum í Ameríku og er einnig mjög vinsæl á Asíumarkaði. Við erum með allt frá veiðistöngum til veiðifatnaðar. Sjóstangir, hnífar, spúnar og öll verkfæri sem tengjast þessu hobbý. Góðan úrvals fatnað, björgunarvesti, vöðlur, flotgalla og allskonar veiðihatta. Kast stangarsett fyrir byrjendur og lengra komna. Við erum með úrvals vörur fyrir veiðimanninn,“ segir Sigurður en hann er sjálfur mikill áhugamaður um veiðisport.
Þegar aðspurður hvort konur séu að veiða fisk þá segir hann þeim vera að fjölga. „Jú jú konur eru líka að veiða en karlar eru mun fleiri. Þetta er yndislegt hobbý sem hefur verið karllægt af einhverri ástæðu en konum hefur fjölgað undanfarin ár. Við aðstoðum fólk við að velja bestu jólagjöfina handa veiðimanninum, ekkert mál,“ segir Sigurður.