Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Stofna félag í tengslum við kjölfestuhlut í Bláa Lóninu
Þriðjudagur 18. desember 2012 kl. 10:07

Stofna félag í tengslum við kjölfestuhlut í Bláa Lóninu

Grímur Sæmundsen, Edvard Júlíusson og Landsbréf hf. hafa stofnað nýtt félag, Hvatningu slhf.,  utan um kjölfestuhlut í Bláa Lóninu hf.  Eigendur Hvatningar eru annars vegar Kólfur ehf., félag í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins hf. og Edvards Júlíussonar og hins vegar Horn hf. sem er félag í stýringu hjá Landsbréfum. Horn II slhf., sem er nýr framtakssjóður í rekstri Landsbréfa hf., hefur kauprétt að eignarhluta Horns í Hvatningu.

 Í gegnum Hvatningu munu hluthafarnir vinna sameiginlega að því að styrkja Bláa Lónið hf. enn frekar, enda eru mikil tækifæri í fjárfestingu í ferðaþjónustu á Íslandi þar sem fjölgun ferðamanna hefur verið mikil og væntingar eru um frekari vöxt í framtíðinni. Hvatning slhf. er stærsti einstaki hluthafinn í Bláa Lóninu hf.

 Landsbréf vænta þess að fjárfestingin í Bláa Lóninu verði fyrsta af nokkrum áhugaverðum fjárfestingum Horns II í íslensku atvinnulífi. Landsbréf eru nú um mundir að bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa hluti í Horn II, en gert er ráð fyrir að eigið fé félagsins verði á bilinu 4-8 milljarðar króna þegar félagið verður fullfjármagnað.

 Bláa Lónið er einn þekktasti og eftirsóttasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi. Gestafjöldi í Bláa Lónið hefur farið vaxandi með hverju árinu sem hefur liðið. Landsbréf telja mikil tækifæri felast í samstarfi við Grím Sæmundsen sem hefur verið frumkvöðull að uppbyggingu Bláa Lónsins eins og kunnugt er og mikill áhugamaður um frekari uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.

 Um Landsbréf hf.

Landsbréf eru sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki og eitt öflugasta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með yfir 80 milljarða króna í virkri stýringu. Landsbréf þjóna jafnt einstaklingum sem fagfjárfestum og hlutverk félagsins er að vera hreyfiafl sem með virkri eignastýringu brúar bilið milli sparnaðar og fjármögnunar á öllum stigum íslensks samfélags. Hjá Landsbréfum starfar fjöldi sérfræðinga með mikla reynslu af sjóðastýringu, verðbréfamarkaði og íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Landsbréf hf., eru dótturfélag Landsbankans hf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024