Stöðugur vöxtur hjá Merkiprent
Merkiprent er meðal fjölmargra fyrirtækja í Reykjanesbæ sem hafa vaxið hratt undanfarin ár og er nú óðum að sprengja utan af sér húsnæði sitt við Iðavelli. Merkiprent hóf starfsemi sumarið 1993 og hefur alla tíð síðan verið að bæta við sig verkefnum og segir Einar Sigurpálsson, eigandi fyritækisins að útlit sé fyrir enn meiri vöxt.
„Við byrjuðum á að litljósrita og prenta á penna en nú erum við mest í skiltagerð og bílamerkingum. Svo erum við líka að merkja mikið af búningum fyrir íþróttafélögin, þannig að þetta hefur þróast í aðra átt en til stóð í upphafi.“
Einar vinnur sjálfur í framleiðslunni og er með tvo starfsmenn sér til fulltingis. Það er ekki vanþörf á þar sem oft eru mörg handtökin í þessum bransa. Það er þó að breytast, m.a. með tilkomu prentvélar sem keypt var fyrir nokkrum árum, en sú getur prentað á margvíslegt yfirborð, ss. fánaefni, límefni á bíla og striga, en Einar segir að ljósmyndaprent á striga sé afar vinsælt um þessar mundir.
„Svo hefur líka verið mikið að gera í að setja sandblásturfilmu í rúður bæði hjá fyrirtækjum og í heimahúsum. Það er annars mjög mikilvægt að hafa fjölbreytni í þessu til að hafa nóg að gera á ekki stærra svæði, svo er líka skemmtilegra að hafa margvísleg verkefni.“
Auk þess að sinna flestum verkefnum í merkingarlasunum hefur Einar sambönd við aðila úti í heimi sem geta sinnt verkefnum sem íslensk fyrirtæki ráð ekki við sökum þess að ekki er réttur tækjabúnaður til staðar. Þar má t.d. nefna prentun á spilastokka.
Stöðug aukning hefur verið á starfsemi Merkiprents á þeim tíma sem liðin er frá stofnun og segir Einar ekki útlit fyrir annað en að framhald verði á. „Ég vil bara hvetja áhugasama til þess að kíkja á okkur og sjá hvaða lausnir og hugmyndir við höfum að bjóða.“
Myndir: 1: Það er í mörg horn að líta hjá Merkiprent enda er mikið að gera svo skömmu fyrir Ljósanótt. 2: Stóri prentarinn að störfum.