Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sprenging í sölu á gæludýramat og heilsuvörum í Nettó
Fimmtudagur 16. apríl 2020 kl. 15:30

Sprenging í sölu á gæludýramat og heilsuvörum í Nettó

Sprenging hefur orðið í sölu á gæludýramat, þurrvöru og frosnum matvörum í verslunum Nettó síðustu vikur. Þá hefur sala á heilsuvörum og lífrænt ræktuðum vörum margfaldast.

„Það hefur verið sprenging í sölu í öllum vöruflokkum hjá okkur en það fer ekki á milli mála að fólki þykir afar vænt um gæludýrin sín og ætlar ekki að láta þau líða skort þrátt fyrir veiruna. Við erum auðvitað öll í þessu saman, dýrin og við,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þá er ljóst að Íslendingar ætla að huga vel að heilsunni á næstu vikum því sala á heilsuvörum og lífrænum vörum hefur margfaldast hjá okkur. Það hefur líka verið mikil aukning í sölu á sælgæti og snakki en hlutfallslega er hún ekki nærri jafn mikil og þegar veðurviðvarirnar hafa verið gefnar út á síðustu mánuðum. Á þessum tímum skiptir það líka máli að huga vel að heilsunni – bæði andlegri og líkamlegri.“

Sem fyrr segir hefur mikil söluaukning verið í öllum vöruflokkum hjá Nettó síðustu vikur og að sögn Gunnars virðast Íslendingar helst ásælast niðursuðuvörur, frosnar matvörur, þvottaefni, hreinlætisvörur, kaffi, te, kakó, súpur, pasta, sósur, brauð, osta, smjör og nautakjöt.

 „Það má kannski líka segja að klósettpappírsvísitalan sé búin að ná jafnvægi aftur. Í byrjun faraldsins jókst sala á klósettpappír til muna enda hömstruðu Íslendingar hann eins og enginn væri morgundagurinn. Íslendingar eru hins vegar búnir að átta sig á því að það er ekki vöruskortur, sérstaklega ekki í klósettpappír, svo salan nú er ekki jafn brjálæðislega mikil og fyrir nokkrum vikum.“