Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sporthúsið fær fljúgandi start
Miðvikudagur 8. maí 2013 kl. 11:47

Sporthúsið fær fljúgandi start

Sporthúsið opnaði nýja og glæsilega ríflega 2000 fermetra heilsu- og líkamsræktarstöð á Ásbrú í Reykjanesbæ sl. haust. Sporthúsið hefur fengið fljúgandi start og aðsóknin hefur verið framar vonum frá fyrsta degi. Opnun stöðvarinnar er öflug viðbót innan heilsuþorps Ásbrúar. Sporthúsið er að veita um 30 manns atvinnu. Átta manns eru í fullu starfi og aðrir í hlutastörfum.

Það eru þau Ari Elíasson og Eva Lind Ómarsdóttir sem eiga og reka stöðina ásamt eigendum Sporthússins í Kópavogi, þeim Þresti Jóni og Inga Páli Sigurðssonum. Sporthúsið er vel þekkt fyrirtæki á þessu sviði og rekur eina stærstu og öflugustu líkamsræktarstöð landsins í Kópavogi.

Markmið Sporthússins í Reykjanesbæ er að veita framúrskarandi persónulega þjónustu, bjóða upp á fjölbreytt úrval af opnum tímum og námskeiðum þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þá leggur Sporthúsið mikinn metnað í snyrtimennsku og hreinlæti í stöðinni. Í samtali við blaðið sagði Ari Elíasson að stöðin bjóði allt það helsta í líkamsrækt í dag; fullkominn tækjasal, einkaþjálfun, þolfimisali, CrossFit, HotYoga, skvass, spinning, Pilates, ketilbjöllur auk fjölda annarra opinna hóptíma. Í Sporthúsinu eru tíu þolfimisalir og í viku hverri í vetur hafa verið á fimmta tug tíma í opinni hóptímatöflu sem fólk hefur getað sótt. Allir þessir tímar hafa verið mjög vel sóttir og markmið okkar er ávallt að geta boðið upp á mjög gott framboð og fjölbreytta hóptímatöflu sem allir okkar viðskiptavinir hafa kost á að fara í. Þá bjóðum við upp á barnagæslu í allt að 8 klst. á dag sem hefur mælst mjög vel fyrir hjá okkar viðskiptavinum auk þess sem hér er verslun með fæðubótarefni og boostbar frá Líkama og lífsstíl.

Sporthúsið býður fólki upp á að gera áskriftarsamninga í heilsuræktina. Þetta hefur mælst einstaklega vel fyrir en um vaxtalausa beingreiðslu- eða boðgreiðslusamninga með 12 mánaða binditíma er að ræða. Það þarf því ekki að leggja út tugþúsundir til þess að hefja heilsurækt. Einnig er hægt að fá kort til styttri tíma. Þegar keypt er kort eða áskrift í Sporthúsið gildir það jafnframt í Sporthúsið í Kópavogi og hefur þessi þjónusta mælst einstaklega vel fyrir hjá viðskiptavinum Sporthússins. Mesta álagið í líkamsræktinni er á haustin, í september og október, og svo aftur í janúar, febrúar og mars. Álagið er þó að jafnast meira yfir árið í heilsurækinni og skynjum við meiri vitundarvakningu hjá almenningi hvað varðar holla og góða hreyfingu.

Ari segir slagorð Sporthússins vera „heilsurækt fyrir alla“ enda er mikil breidd í þeim hópi sem sækir sína líkamsrækt þangað. Flestir eru þó á aldrinum 20 til 55 ára. Þó er einnig yngra fólk í ræktinni í Sporthúsinu og þeir elstu eru á áttræðisaldri. Þá segir hann konur sækja í meira mæli í hóptímana á meðan strákarnir eru meira í tækjasalnum. Einnig eru margir sem stunda Crossfit hjá Crossfit Reykjanesbæ sem hafa aðstöðu í húsinu og Superform-námskeiðið hjá Sævari Borgarssyni hefur slegið rækilega í gegn.
Fólk af öllum Suðurnesjum sækir Sporthúsið í Reykjanesbæ. Staðsetningin á Ásbrú er miðsvæðis fyrir alla og þá er ekki horft eingöngu til Reykjanesbæjar. Þá er mikil uppbygging á svæðinu. Sporthúsið er í samstarfi við íþrótta- og heilsuskóla Keilis. Í Sporthúsinu fer fram öll verkleg kennsla fyrir ÍAK einkaþjálfaranema Keilis. Öll kennsla á námskeiðum og þjálfarabúðum sem íþrótta- og heilsuskóli Keilis heldur fer einnig fram í Sporthúsinu.

Sporthúsið í Reykjanesbæ er með samning við nokkur fyrirtæki og stofnanir um líkamsrækt. Það er að færast í vöxt að fyrirtæki og stofnanir eru að greiða eða styrkja starfsmenn til heilsuræktar. Þannig æfir stór hópur starfsmanna ISAVIA og Fríhafnarinnar hjá Sporthúsinu ásamt lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum. Þá er Landhelgisgæslan einnig með samning um líkamsþjálfun fyrir m.a. starfsmenn sem koma að loftrýmisgæslu á Íslandi. Nú er t.a.m. nýfarinn frá landinu um 300 manna hópur frá kanadíska hernum sem voru hér við loftrýmisgæslu en þeir voru einstaklega duglegir að sækja sér líkamsþjálfun í Sporthúsið. Ari segir skemmtilegt frá því að segja að sjálfur flotaforingi og æðsti yfirmaður kanadíska hersins vildi ólmur fá að koma á æfingu hjá okkur eftir að hafa heyrt frá sínum mönnum af framúrskarandi aðstöðu til heilsuræktar á svæðinu, er hann var í dagdvöl sem hann átti á Íslandi vegna veru sinna manna hér um daginn.

„Við horfum björtum augum á það sem framundan er hjá okkur í Sporthúsinu og erum stöðugt að laga okkur að þörfum viðskiptavinarins hverju sinni og koma með nýungar og fjölbreytni í heilsuræktinni,“ segir Ari að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024