Spkef: Reynt að koma til móts við stofnbréfa lántakendur
„Viðbrögð hafa almennt verið góð hjá lántakendum. All margir hafa þegar gengið frá sínum málum sem er afar jákvætt. Einhverjir eru ekki fyllilega sáttir en það var viðbúið. Verið er að reyna að koma til móts við lántakendur eins og kostur er,“ sagði Einar Hannesson, sparisjóðsstjóri um þær aðgerðir sem SpKef sparisjóður kynnti í síðustu viku vegna stofnbréfalána.
Einar sagði að starfsmenn SpKef sparisjóðs hafi að undanförnu hringt í stofnbréfalántakendur sem eru nálægt þrjú hundruð. Í aðgerðum SpKef til stofnbréfalántakenda er boðið upp á skilmálabreytingu með þeim hætti að skuldabréfin verði færð í upphaflegan höfuðstól að viðbættum 3,75% óverðtryggðum vöxtum frá útgáfudegi skuldabréfanna. Erlend lán verði færð á upphaflegt gengi gjaldmiðla að viðbættum 3,75% óverðtryggðum vöxtum og þau færð yfir í íslenskar krónur. Vextir reiknast frá upphaflegum útgáfudegi. Lánin verði óverðtryggð til 25 ára.
Aðspurður um hvort stofnbréfalántakendur héldu eftir einhverjum eignarhlut í nýjum SpKef sparisjóði sagði hann slíkt ekki vera en stofnfjáreigendur nokkurra annarra sparisjóða hafa haldið allt að 10% eignarhlut í nýjum sparisjóði. Eins hafa nýir stofnfjáraðilar í einhverjum tilfellum komið inn með nýtt stofnfé, s.s. í Sparisjóði Vestmannaeyja. Ástæðan fyrir því að stofnfjáraðilar hafa í ákveðnum tilvikum haldið eftir hluta af sínu stofnfé, eins t.d. í tilfelli Sparisjóðs Bolungarvíkur, er sú að í þeim tilvikum var Seðlabanki Íslands svo til eini kröfuhafinn en í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur voru kröfuhafarnir aðrir og fleiri.
Kröfuhafafundur slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík verður haldinn á Grand Hótel, Sigtúni, Reykjavík í dag kl. 10:00. Á fundinum verður farið yfir helstu atburði í Sparisjóðnum í Keflavík fram að 23. júlí 2010 sem og helstu verkefni slitastjórnar eftir skipun hennar. Kröfuskrá verður lögð fram á fundinum ásamt mótmælum sem hafa borist fyrir fundinn.