SpKef og tengdir aðilar stærstir í Icebank
Sparisjóðurinn í Keflavík, SpKef, verður stærsti hluthafi Icebank eftir sölu SPRON og Byrs á samtals 45,2% hlut. SpKef var þriðji stærsti eigandi Icebank fyrir söluna með 12,2% hlut en verður eftir söluna með um 15% hlut. Sparisjóður Mýrarsýslu bætir við sig svipuðum hlut og verður eftir söluna með um 12%. Fleiri fjárfestar af Suðurnesjum en SpKef keyptu stóra hluti í Icebank.
Meðal þeirra eru Suðurnesjamenn ehf., félag sem átti í vor næst hæsta tilboðið á eftir Geysi Green Energy í hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, og Steinþór Jónsson og fjárfestar honum tengdir, en báðir keyptu nálægt 10% hlut.
Stjórnendur Icebank og eigendur Behrens Fyrirtækjaráðgjafar keyptu um 9% hlut hvor en aðrir keyptu minna. Eftir söluna eiga SPRON og Byr 4% hlut hvort félag en kaupendur að hlutum þeirra nú eiga forkaupsrétt að þessum 8%.
Viðskiptablaðið greinir frá þessu.