Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Spiral design opnar í höfuðborginni
Föstudagur 28. október 2011 kl. 11:35

Spiral design opnar í höfuðborginni


Spiral design sem er eitt af nýsköpunarfyrirtækjunum á Suðurnesjum opnaði nýlega verslun að Hverfisgötu 52 í Reykjavík. Fyrir er Spiral með vinnustofu og verslun að Hafnargötu 12 í Keflavík en auk þess eru vörur fyrirtækisins seldar í Fríhöfninni og víðar úti á landi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við höfum verið að líta eftir húsnæði í höfuðborginni í nokkurn tíma og duttum svo niður á húsnæði þar sem Elísabet Ásberg var áður til húsa. Við skelltum okkur á það og ætlum að sjá hvernig það gengur. Byrjunin lofar alla vega góðu hér í höfuðborginni og viðtökurnar framar væntingum en við verðum einnig áfram í Keflavík,“ sögðu þær Íris Jónsdóttir og Ingunn E. Yngvadóttir, eigendur Spiral.

Þær stöllur hanna allan fatnað og sauma hann hér heima og láta vel af sér í nýsköpunarfjörinu hér á Íslandi. Íris, sem á að baki nám í Myndlista- og handíðaskólanum sem og Kennaraháskólanum, hafði starfað sem myndlistarkennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í rúman áratug þegar hún ákvað að taka frí og reyna fyrir sér á nýjum vettvangi. Ingunn hefur m.a. starfað sem flugfreyja en hún á að baki nám í innanhúss stíllistun.

Hjá Spiral starfa klæðskerar og kjólameistarar undir stjórn þeirra Írisar og Ingunnar og þær hafa fengið góð viðbrögð við Spiral hönnuninni sem er stíluð inn á konur á öllum aldri.

Íris og Ingunn í Spiral versluninni við Hverfisgötu í Reykjavík. VF-myndir/pket.