Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Miðvikudagur 12. janúar 2000 kl. 15:40

SPARISJÓÐURINN KYNNIR GSM-BANKA

Sparisjóðurinn kynnir nýjung í bankaviðskiptum á Íslandi, GSM-banka. Með GSM-bankanum er viðskiptavinum Sparisjóðsins gert kleift að stunda margvísleg bankaviðskipti hvar sem þeir eru staddir og spara þannig tíma og fyrirhöfn. Í GSM-bankanum er hægt að millifæra á eigin reikning eða reikning annarra. Þá er hægt að greiða gíró- og greiðsluseðla og fá yfirlit yfir stöðu og færslur bankareikninga og greiðslukorta. Jafnframt er hægt að fá upplýsingar um gengi gjaldmiðla og vísitölur og fletta upp í símaskrá. Allar aðgerðir eru unnar með gagnvirkum SMS skilaboðum og taka mjög skamman tíma. Það tekur t.d. örfáar sekúndur að fá stöðu á tékkareikningi. GSM-bankinn byggir á svokallaðri SIM Toolkit-tækni, sem felst í því að í stað venjulegs SIM-korts, sem stungið er í GSM-símann, kemur sérstakt gagnakort. Á kortið eru forritaðar valmyndir, sem viðskiptavinurinn notar til að framkvæma aðgerðir í bankanum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að tryggja leynd og öryggi upplýsinga, sem sendar eru um GSM-bankann. Þeir, sem stunda bankaviðskipti hjá Sparisjóðnum og eru jafnframt í viðskiptum við Símann GSM, fá gagnakortið afhent ókeypis í skiptum fyrir símakortið, sem þeir nota nú. Flestir nýlegir GSM-símar, sem komið hafa á markaðinn á árinu (s.s Nokia 3210 og Ericsson T18s), eru móttækilegir fyrir gagnakortum. Sparisjóðurinn mun bjóða viðskiptavinum sínum slíka síma á sérstöku tilboðsverði fram til 1. febrúar. Notkun GSM-bankans tengist skráningu í Heimabanka Sparisjóðsins. Viðskiptavinir hafa aðgang að sömu reikningum og greiðslukortum og í Heimabankanum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024