Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Snyrtistofa Huldu 20 ára
Fimmtudagur 30. september 2004 kl. 12:54

Snyrtistofa Huldu 20 ára

Snyrtistofa Huldu fagnar um þessar mundir þeim tímamótum að snyrtistofan hefur starfað í 20 ár. Eigandinn, Hulda Erla Pétursdóttir snyrtifræðingur, hefur rekið snyrtistofuna alla tíð að Sjávargötu 14 í Njarðvík þar sem hún býr. Í fyrstu var snyrtistofan starfrækt í einu herbergi en stækkaði ört og er nú á heilli hæð sem var hönnuð sérstaklega sem snyrtistofa af arkitekt og er stofan mjög vel tækjum búin. Fyrirtækið hefur farið vaxandi í áranna rás og er það þakkarvert og alls ekki sjálfgefið í dag, að sögn Huldu.

Landslagið í þessari grein hefur breyst mikið á síðastliðnum 20 árum og segir Hulda að mest hafi breyst í kjölfar framfara í tækni og aukins tækjakosts. ,,Það eru auðvitað alltaf að koma fram nýjungar sem gera manni kleyft að ná mun betri árangri en hægt er með höndinni einni saman“.  Hulda hefur ávallt verið fljót að tileinka sér allar helstu nýjungar bæði í tækjum og efnum og hefur verið leiðandi á landsvísu í þeim efnum. Frá árinu 1987 hefur hún sótt Heimsþing snyrtifræðinga og undanfarin ár hefur hún einnig átt sæti í stjórn félags íslenskra snyrtifræðinga og hefur sá vettvangur meðal annars gert henni kleyft að fylgjast enn betur með straumum og stefnum í greininni.

,,Ég er mjög þakklát öllum þeim viðskiptavinum sem hafa fylgt mér í gegnum árin og haldið tryggð við mig“, segir Hulda. ,,Margir þeirra eru orðnir mjög góðir vinir mínir og mér finnst alltaf jafn gaman að taka á móti þeim“.  Nú eru starfandi með mér tveir reyndir snyrtifræðingar þær Kristín Jóna Hilmarsdóttir og Halldóra Sólbjartsdóttir. Hulda segist að lokum alls ekkert vera komin með leið á starfinu eftir árin 20. ,,Ég hef alltaf jafn gaman af snyrtifræðinni og ef ég mætti velja mér fag upp á nýtt þá yrði það svo sannarlega þetta fag“ – það segir meira en mörg orð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024