Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Smiðurinn sem fór í veitingabransann
Laugardagur 2. febrúar 2019 kl. 09:00

Smiðurinn sem fór í veitingabransann

Það er engin vafi á því að Bói er frumkvöðull í eðli sínu og örugglega eilítið ofvirkur eins og margir fleiri af hans kynslóð sem eru harðduglegt fólk. Sigurbjörn Sigurðsson heitir maðurinn réttu nafni en er alltaf kallaður Bói. Hann hefur alltaf verið með mörg járn í eldinum og óhræddur við að láta drauma sína rætast. Bói byrjaði á því að læra skipasmíði, fór svo seinna út í að læra húsasmíðar en dreymdi alltaf um að opna eigið veitingahús og lét drauminn rætast árið 1997 þegar hann opnaði Kaffi Duus. Við kíktum í spjall til hans og rákum úr honum garnirnar.

 

Dreymdi um að opna veitingastað

 
„Mamma sagði við okkur bræðurna: „Bói þú verður smiður og Steini þú verður rafvirki,“ og við bara hlýddum mömmu okkar. Undir niðri dreymdi mig samt alltaf um að opna veitingastað. Ég man ég var oft að spyrja Villa pulsu út í alls konar innkaup hjá honum, hvar hann fengi hráefnið og svona, því ég var svona að þreifa fyrir mér með þessa pælingu. Svo þegar ég opnaði Kaffi Duus þá sagðist Villi fatta hvers vegna ég var alltaf að forvitnast hjá honum sem aðrir gerðu ekki heldur keyptu bara af honum pulsu. Maður hefur alltaf verið duglegur að vinna. Ég man þegar ég var smágutti þá voru hlutverkin skýr á heimili okkar. Við bræðurnir rérum á bátnum með pabba út frá Höfnum en systur okkar fimm sinntu heimilisstörfum með mömmu. Það var gaman að alast upp í Höfnum en þar bjuggum við í nokkur ár og lékum okkur úti í náttúrunni. Svo flutti fjölskyldan til Keflavíkur,“ segir Bói. 
 
Hann segist hafa verið fenginn til þess að vera dyravörður í Stapa um tvítugt, til þess að fækka órólegum gestum á böllunum í Stapa.
 
„Já, ég var alltaf dálítið órólegur og Hafsteinn sagði að ég væri betur geymdur sem dyravörður í Stapa því ég væri alltaf með svo mikil læti á böllunum. Ég kunni vel við mig í dyravörslunni,“ segir Bói og hlær dátt og bætir við: „Svo fór ég að æfa júdó og það átti vel við mig og ég var með í að stofna júdódeild Keflavíkur. Ég fékk útrás og keppti í júdó. Ég stofnaði Trébæ með Stebba Bjarna og vorum við að smíða saman í nokkur ár eða þar til ég þoldi svo illa rykið og ákvað að hætta.“

 

Þótti glötuð staðsetning

 
„Það blundaði alltaf í mér að opna veitingastað og svo þegar ég fékk þessa lóð sem Kaffi Duus stendur á í dag og að auki leyfi til þess að setja upp sumarbústað hérna sem ég átti til, þá var ekki aftur snúið. Menn höfðu enga trú á því samt að reka veitingahús hérna í Grófinni við hlið gömlu dráttarbrautarinnar sem var að vísu ekki lengur í notkun sem slík. Við vorum í jaðrinum á bænum þá en aðalsvæðið var um miðja Hafnargötu. Eftir fyrsta opnunardaginn, þegar ég sá að innkoman var aðeins 1.700 krónur, þá runnu á mig tvær grímur og ég fór einnig að efast,“ segir Bói alvarlega. 
 
Á þessum árum var herinn ennþá staðsettur á Vellinum fyrir ofan byggð og Kaninn duglegur að sækja veitingahúsin niðurfrá í Keflavík. Íslendingar voru ekki farnir að borða eins mikið úti þá eins og Ameríkanar gerðu. 
 
„Það má eiginlega segja að Kaninn hafi bjargað okkur í byrjun og komið okkur af stað. Þetta fór að rúlla með viðskiptum þeirra. Ég hafði matarskammtana stóra því það vildu Ameríkanarnir og ég hef haldið þessu síðan, verið örlátur á matinn sem gestir staðarins fá á diskinn. Svo þróast þetta í að verða mjög vinsæll veitingastaður á meðal Kana og einnig Íslendinga. Það varð okkur mikill skellur þegar Kaninn fór af landi brott en þá hvarf stór hluti viðskiptanna með þeim. Við vorum að rembast við að lifa af og svo kom hrunið. Þá byrjaði ég að víkka út starfsemina og bauð upp á dansgólf hér sem var mjög vinsælt. Umgengnin varð samt slæm og fór illa með staðinn. Fólk var of drukkið á þessum böllum og skemmdir urðu á húsnæðinu vegna þess. Fólk var að dansa uppi á borðum og ég sá að þetta átti ekki saman, að vera með böll og góðan veitingastað. Þá hætti ég að bjóða upp á langa helgaropnun með dansi. Í dag einbeitum við okkur að því að reka góðan veitingastað og kaffihús og erum með opið frá klukkan ellefu til ellefu en eldhúsið lokar að vísu klukkutíma fyrir lokun.“

 

Sömu laun fyrir alla

 
„Í dag er staðan allt önnur. Ferðamenn hafa breytt öllum rekstri veitingahúsa hér á landi. Við erum einnig að fá Íslendinga og mér finnst gaman að fá þá. Ég finn að Íslendingar vilja fá þjónustu hjá okkur á íslensku og sumir verða móðgaðir ef það er ekki í boði. Við reynum því að vera með íslenskt starfsfólk einnig eða einhvern í sal sem talar íslensku. Það er samt ekki auðvelt að fá íslenskt starfsfólk því það sækir ekki um þessi störf á meðan annað er í boði, því miður. Ég borga sömu laun hvort sem ég er með Íslendinga eða útlendinga. Það er samt einhvern veginn þannig að það þykir ekki eftirsóknarvert í dag að starfa sem þjónn fyrir landann. Ég er með úrvals starfsfólk frá Frakklandi, Indlandi og Litháen sem hefur verið hjá mér lengi. Sumir tala íslensku en ég stend sjálfan mig að því að tala sjálfur við fólkið á ensku þegar ég er að flýta mér því þau tala hægar íslensku. Ég er að endurskoða þetta því ég veit það hjálpar þeim ef ég er þolinmóður þegar ég tala við þau á íslensku. Það er þetta bráðlæti í okkur Íslendingum. Ég sá þetta mjög glöggt þegar við fengum kokk eitt sinn sem talaði ekki ensku. Þá tók ég þá ákvörðun að tala strax við hann á íslensku, vera ekkert að flækja þetta með ensku og maðurinn var farinn að tala íslensku eftir þrjá mánuði. Svo þetta er hægt ef við viljum,“ segir Bói. 

 

Spennandi matseðill

 
„Við erum með 80% fisk á matseðli og fáum hráefnið mjög ferskt beint frá bátunum. Við erum einnig með lamb, salöt og hamborgara. Svo erum við einnig með indverska rétti og ákveðinn kynningarmatseðil fyrir útlendinga til að kynna fyrir þeim íslenskan mat. Við leggjum metnað okkar í að bjóða veitingar á sanngjörnu verði. Í hádeginu erum við með hlaðborð þar sem súpa og kaffi er innifalið en fyrir þetta borga gestir okkar 2.300 krónur. Ég útbý sjálfur matseðilinn, ásamt kokkunum mínum, og legg upp úr því að hafa íslenskt einnig á matseðli. Annars vil ég segja að allt þetta útlenda starfsfólk hefur aukið við matarmenningu okkar hér á landi. Við höfum lært helling af þessu fólki. Erlenda starfsfólkið mitt er duglegt og samviskusamt en það skiptir miklu máli að hægt sé að treysta þeim. Þau eru þakklát fyrir að vera hér á landi og hafa safnað vel svo þau eiga bæði húsnæði og bíl.“
 

Vesturbærinn er að verða demantur bæjarins og yfirvöld gera sér grein fyrir því, þau sjá gullið í staðsetningu gömlu húsanna hérna.

 

Er að opna hótel

„Framundan eru miklar breytingar en við erum að opna 14 herbergja glæsilegt hótel hér í húsnæði sem er sambyggt við Kaffi Duus og mun heita Hótel Duus. Þarna verður frábært útsýni fyrir gesti okkar. Þá munum við samnýta veitingahúsið hótelinu og bjóða upp á morgunmatinn hér, hádegismat og kvöldmat ef gestir vilja. Kaffi Duus verður auðvitað opið áfram almenningi en hingað er vinsælt að koma og fá sér kaffi og tertu um miðjan dag. Á kvöldin er vinsælt að borða góðan mat og sumir koma til að fá sér í glas. Allt á rólegum nótum. Þannig viljum við reka staðinn í dag og gera vel við gesti okkar. Við erum byrjuð að fá fyrirspurnir vegna hótelsins en þar viljum við einnig taka á móti Íslendingum sem eru til dæmis að fara í flug eða langar að njóta Ljósanætur með okkur. Staðsetning hótelsins er frábær. Gestir geta notið þess að fara í hvalaskoðun héðan, farið á söfn bæjarins eða fengið sér göngutúr um bæinn. Hafnargatan og gamli bærinn lokkar með verslunum og fleiru. Það eru óteljandi möguleikar. Vesturbærinn er að verða demantur bæjarins og yfirvöld gera sér grein fyrir því, þau sjá gullið í staðsetningu gömlu húsanna hérna. Ég væri til í að sjá víkingaskipið verða flutt frá Njarðvíkunum og hingað niðureftir, selja húsið inni á Fitjum og stilla skipinu upp hér í dráttarbrautinni gömlu og breyta í safn utan um skipið og sögu landnámsins. Ég er viss um að það myndi skila sér í auknum ferðamannastraumi niður í miðbæ. Saga víkinga heillar útlendinga og Íslendinga. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Bói sem hlakkar greinilega til að upplifa ný ævintýri í kringum reksturinn.

 
Marta Eiríksdóttir // [email protected] //

 
Séð yfir Duus Kaffi úr dróna myndavél í byrjun febrúar 2019. Hótelbyggingin gengur vel og Bói er spenntur að opna 14 herbergi þar.
 
 
Bói með Þorsteini bróður sínum sem kom í heimsókn á Duus.
 

Það er notalegt að setjast inn á Duus Kaffi og fá sér góðan mat eða bara kaffi og köku.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024