Sigurður og Sigurður taka við AB-varahlutum
Sigurður Helgi Jónsson og Sigurður Þór Hlynsson hafa keypt rekstur á AB- varahlutaversluninni sem staðsett er á Bolafæti 1 í Njarðvík. VF ræddi stuttlega við nýja eigendur fyrir skömmu.
Sigurður Helgi segist hafa starfað sem verslunarstjóri verslunarinnar frá stofnun eða frá árinu 2010 og þekkti reksturinn því mjög vel. „Þegar fyrrum eigandi ákvað að selja bauðst mér að taka við rekstrinum. Við fórum yfir málið og ákváðum svo að slá til enda mjög gott tækifæri og sjáum við mikla möguleika í rekstrinu. Sigurður þór er viðskiptamenntaður og fannst mér því tilvalið að fá hann með mér í reksturinn og mun ég þá áfram sinna stöðu verslunarstjóra en Sigurður Þór mun sjá um fjármálahliðina.“
Þeir félagar segir að framundan séu spennandi tímar og munu viðskiptavinir klárlega sjá miklar breytingar. Verslunin mun strax auka úrval sitt á varahlutum til muna og ættu viðskiptavinir því ekki að vera í vandræðum með að fá þær vörur sem þeir óska eftir þegar kemur að bílavarahlutum. „Við munum einnig auka úrvalið á rekstrarvörum og ýmsum tengdum vörum frammi í verslunninni. Að lokum eru til skoðunar ýmsar leiðir til þess að auka þjónustuna við viðskiptavininn enn frekar. Megin áherslan verður því þjónustan og að bjóða upp á eins mikið vöruúrval og mögulegt er á hagstæðu verði.
Þeir félagar bjóða viðskiptavinum hjartanlega velkomna og vonast þeir eftir að geta þjónustað bæjarbúa sem allra best í framtíðinni.