SHIP-O-HOJ í Njarðvík: Magnaðar móttökur
Móttökurnar sem sælkeraverzlunin SHIP-O-HOJ að Hólagötu 15 í Njarðvík fékk í morgun voru ótrúlegar. „Við áttum von á því að það yrði mikið en ekki bilað að gera,“ sagði Ólafur Guðbergsson, einn af starfsmönnum verslunarinnar í samtali við fréttamann VF sem leit við í nýju búðinni þegar hún var að loka seinni part föstudags.
Verslunin er með úrval af kjöti, ferskum fiski og fiskréttum en strax við opnun verzlunarinnar voru fjölmargir mættir til að kaupa bæði kjöt og fisk en kjötborðið í SHIP-O-HOJ er það eina á Suðurnesjum. Nokkuð hefur heyrst meðal fólks að það vantaði kjötborð á Suðurnesjum. Því var svarað hressilega í dag með frábærum móttökum.
Sælkeraverzlunin verður opin virka daga kl. 11 til 18 og á morgun laugardag verður opið frá kl. 12-15.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í versluninni í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi