Selja hlutafé í HS Veitum
Eigendur að 34,38% hlut í HS Veitum hf. hafa falið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á eignarhlut sínum í félaginu. Þessi hlutur er í dag í eigu Reykjanesbæjar, Orkuveitu Reykjavíkur, Grindavíkurbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga. Skiptast auglýstir hlutir svo:
Reykjanesbær auglýsir 222.492.830 hluti eða 16,65% heildarhlutafjár. Ekki eru auglýstir 669.550.929 hlutir eða 50,1% heildarhlutafjár í HS Veitum.
Orkuveita Reykjavíkur auglýsir 221.609.343 hluti eða 16,58% heildarhlutafjár.
Grindavíkurbær auglýsir 6.802.886 hluti eða 0,51% heildarhlutafjár.
Sandgerðisbær auglýsir 2.979.974 hluti eða 0,22% heildarhlutafjár. Ekki eru auglýstir 1.336.429 hlutir eða 0,1% heildarhlutafjár.
Garður auglýsir 4.277.099 hluti eða 0,32% heildarhlutafjár.
Vogar auglýsa 1.331.573 hluti eða 0,10% heildarhlutafjár.
HS Veitur hf. eru dreifiveita rafmagns samkvæmt Raforkulögum nr. 65/2003 og annast að auki dreifingu heits vatns og ferskvatns á starfssvæðum sínum. Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjanesbæ en jafnframt eru starfsstöðvar í Árborg, Hafnarfirði og í Vestmannaeyjum.
Söluferlið er opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði um að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, auk aðila sem búa yfir fullnægjandi þekkingu og reynslu og geta sýnt fram á eiginfjárstöðu umfram 300 milljónir kr. Seljendur áskilja sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu, meðal annars í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að fjárfestir eignist hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna.
Áhugasömum fjárfestum er bent á að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka í síma 440 4000 eða með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]. Áhugasamir fjárfestar þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingu ásamt því að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem staðfesta að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Í kjölfarið fá fjárfestar afhentar frekari upplýsingar um tímasetningar og skilmála söluferlisins auk upplýsinga um fjárhag og starfsemi félagsins.
Frá þessu er greint á mbl.is