Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Föstudagur 4. febrúar 2000 kl. 12:33

Seglás opnar í Sandgerði:

Vinsæl fortjöld og veiðafæragerð Fyrirtækið Seglás í Sandgerði hóf starfsemi sína í desember á síðasta ári, í því húsnæði sem verslunin Aldan var áður. Eigendur fyrirtækisins eru Halldór Sigurðsson og eiginkona hans Guðlaug María Lewis og Jónatan Ingimarsson og Ólöf Guðmundsdóttir, kona hans. Viðskiptin hafa gengið vel það sem af er, að sögn Jónatans, en Seglás er með veiðafæragerð, verslun, framleiðir fortjöld fyrir fellihýsi og tekur að sér viðgerðir á tjöldum. Formlegt opnunarhóf var haldið í húsnæði fyrirtækisins s.l. föstudags kvöld og var margt um manninn. Söngsveitin Víkingar tók m.a. lagið undir styrkri stjórn Einars Arnar organista og tónlistarmanns með meiru. Fjöldi viðskiptavina samfögnaði nýju eigendunum og færðu þeim blómvendi og góðar gjafir í tilefni dagsins. Engir nýgræðingar Jónatan og Halldór eru engir nýgræðingar á þessu sviði því þeir lærðu báðir netagerð hjá Jóni Eggertssyni í Netanausti fyrir nokkrum áratugum síðan. Jónatan er meistari í greininni og hefur starfað við netagerð síðan 1968. Halldór er sveinn og hefur unnið við netagerð bæði til sjós og lands síðan 1977. Þeir störfuðu báðir hjá Jóni í nokkur ár en leiðir þeirra skildust þegar Jónatan ákvað að stofna sitt eigið netagerðarfyrirtæki árið 1980. Árið 1994 keypti hann saumavélar og tæki úr dánarbúi Karls Björnsson sem rak Seglasaum í Keflavík um margra ára skeið. Síðan þá hefur Jónatan fengist við tjaldaviðgerðir og tjaldhönnun með góðum árangri. Fortjaldið vinsælt Starfsemi fyrirtækisins felst fyrst og fremst í tjaldaviðgerðum og veiðafæragerð. Jónatan hefur einnig hannað mjög nýstárlegt fortjald sem hentar öllum tegundum fellihýsa. Halldór segir að hróður tjaldsins væri farinn að berast víða um landið og að fólk gerði sér jafnvel ferð suður til Sandgerðis til að skoða þessa snilldarhönnun með eigin augu. Pantanir eru farnar að streyma inn en þetta er þriðja árið sem Jónatan framleiðir slík tjöld. „Við höfum aldrei auglýst neitt en salan hefur gengið frábærlega vel og við erum þegar komnir með fastan kúnnahóp í sambandi við veiðafæragerðina“, segir Halldór og er augljóslega yfir sig ánægður með viðtökurnar. Seglás rekur líka verslun sem bíður upp á vandaðar vörur á góðu verði fyrir sjómenn og fiskvinnslufólk og einnig eru þeir með ýmislegt sem tengist tjöldum á boðstólnum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024