Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

SBK: Komnir heim á ný
Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 15:22

SBK: Komnir heim á ný

Eigendaskipti voru hjá fyrirtækinu SBK um síðustu mánaðarmót þar sem Ólafur Guðbergsson og Sigurður Steindórsson keyptu ráðandi hlut, eða 60%, af Kynnisferðum.
Þeir eru þó alls ekki ókunnugir því þeir áttu, við þriðja mann, 60% í fyrirtækinu á árunum 2002 til 2006 þegar Kynnisferðir keyptu þá út. Þeir hafa þó starfað hjá fyrirtækinu allan þennan tíma. Ólafur hóf störf hjá SBK árið 1987 en Sigurður árið 1991.


SBK er elsta rútufyrirtæki landsins, var stofnað af Skúla Hallssyni árið 1930, og hefur verið með áætlanaferðir á milli Suðurnesja og Reykjavíkur allar götur síðan. Það hefur undir sínum merkjum 17 bíla og 20 stöðugildi eru hjá fyrirtækinu.
Þeir Ólafur og Sigurður segja ástæðuna fyrir kaupunum að þessu sinni vera einfalda. „Okkur þykir bara vænt um fyrirtækið og við viljum halda því á Suðurnesjum. Okkar takmark er að gera gott fyrirtæki enn betra og þjónsuta svæðið eins vel og hægt er.“


Þó SBK sé aðallega þekkt fyrir áætlanaferðirnar, veitir það fjölbreytta þjónustu. „Við erum með ferðir með nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja,“ sagði Ólafur. „Svo erum við líka með skipulagningu á ferðum fyrir fyrirtæki og félagasamtök innanlands og erlendis og farmiðasölu bæði fyrir Iceland Express og Icelandair.“


Ólafur og Sigurður segja engar meiriháttar breytingar á stefnu fyrirtækisins vera í spilunum alveg á næstunni. „Við erum samt alltaf í naflaskoðun ef svo má segja og margar hugmyndir í gangi en þær eiga eftir að þróast eitthvað.“
Þó má telja til nýjunga verkefnið Reykjanes Express sem fer á milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur þar sem er sérstaklega stílað inn á þá sem sækja skóla í Reykjavík.


„Það hafði verið nokkur samdráttur í ferðunum á milli áður en við fórum út í þetta verkefni með Reykjanesbæ og Keili. Okkar markmið er að fækka bílum sem fara um Reykjanesbraut um 100 á dag en það er bæði umhverfisvænna og eykur umferðaröryggi. Þá ætti vaxandi íbúafjöldi og tvöföldun brautarinnar að gefa okkur enn fleiri tækifæri.“


Þeir vilja að lokum þakka nýjum og gömlum viðskiptavinum fyrir allt og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við Suðurnesjamenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024