Samlokugerð skapar tugi starfa á Keflavíkurflugvelli
Framleiðsla á vörulínu undir heitinu Nordic Deli er að skapa á milli 20 og 30 störf hjá flugeldhúsi Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli. Á komandi sumri skapast enn fleiri störf við framleiðsluna. Víkurfréttir heimsóttu flugeldhúsið og ræddu við Klemenz Sæmundsson, sem veitir eldhúsinu forstöðu.
Flugeldhús Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli, IGS, hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu misserum. Þegar Icelandair ákvað að hætta að gefa mat um borð í flugvélaflota sínum og taka upp sölu á mat í vélunum þá minnkaði framleiðsla Flugeldhússins um 60%. Það leiddi til þess að 60% starfsmanna eldhússins misstu vinnuna.
Framleiddu 12.000 máltíðir á dag
„Framleiðsla Flugeldhússins hafði verið allt að 12.000 máltíðir á sólarhring og minnkaði um helming. Við vissum það strax að við værum með mikla framleiðslugetu og ákváðum strax að leita leiða til að nýta getu eldhússins. Við vorum á þessum tíma byrjaðir að framleiða samlokur fyrir Icelandair sem eru seldar um borð í flugvélunum. Það var ekki nóg fyrir okkur og við gátum meira. Þá vaknaði sú hugmynd að framleiða samlokur og fleira á innanlandsmarkað,“ segir Klemenz Sæmundsson forstöðumaður flugeldhúss Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli í samtali við Víkurfréttir.
Vörumerki sem höfðar til Íslendinga og útlendinga
Hugmyndin að Nordic Deli varð þá til en það er vörumerki sem á að höfða bæði til innanlandsmarkaðar og þess markaðar sem er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Framleiðsla á samlokum á innanlandsmarkað hófst í fyrravor og síðan þá hefur fyrirtækið hægt og bítandi verið að sækja inn á markaðinn. Klemenz telur að fyrirtækið eigi mikið inni, þar sem það hefur lítið sem ekkert auglýst framleiðslu sína. Með hækkandi sól verður vakin meiri athygli á vörum Nordic Deli. Nú þegar eru samlokur og aðrar vörur undir þessu vörumerki komnar í nær allar verslanir og söluturna Suðurnesja og í flugstöðinni hefur vörunum verið tekið ótrúlega vel, segir Klemenz. Þannig séu vörurnar komnar inn í nær allar verslanir Samkaupa nema á Norðurlandi og Austurlandi, en vörurnar verði komnar í sölu þar fyrir sumarið.
Veglegri samlokur
Í stað þess að framleiða nákvæmlega sömu vörur og aðrir á sama markaði hefur flugeldhúsið lagt áherslu á að framleiða þyngri vöru, þ.e. að það sé meira á milli samlokunnar og að hún sé veglegri. Á móti kemur að samlokan er aðeins dýrari. Klemenz segir það ekki aftra fólki að kaupa vöruna og viðbrögðin hafa í raun bara verið góð og jákvæð. „Þannig að við erum bara bjartsýn á það að þessi vara sé komin til með að vera“.
Vörur Nordic Deli eru fjölmargar. Þannig eru framleiddar þrjár tegundir af súpum sem aðeins þarf að hita. Það eru Tex Mex súpa, gulrótarsúpa og einnig ítölsk grænmetissúpa. Samlokutegundir eru níu, þrjár tegundir af Croissant, sjö tegundir af langlokum, tvær af Panini, tvær af vefjum, tvær tegundir af pastabökkum, tvær útgáfur af hamborgurum og svo tvær tegundir af Pólarbrauði sem notið hefur mikilla vinsælda.
Allar þessar vörur Nordic Deli eiga það sameiginlegt að áleggið er meira en hjá samkeppnisaðilum á samlokumarkaði. Í henni Ameríku hefur það verið gagnrýnt að matarskammtar séu stækkaðir. Hefur sú gagnrýni ekki komið inn á borð hjá flugeldhúsinu?
Klemenz svarar því neitandi og bendir á að við framleiðslu á Nordic Deli sé horft til þess að í einni samloku sé heil máltíð. Samlokan ætti að duga og því ætti ekki að þurfa að kaupa með henni t.d. súkkulaðistykki.
Klemenz Sæmundsson næringarfræðingur er forstöðumaður Flugeldhúss IGS á Keflavíkurflugvelli
-------------------------------
Í samkeppni við pulsuna
„Það er gríðarlega mikið af skyndibita í boði á markaðnum og við erum ekki bara í samkeppni við önnur samlokufyrirtæki, heldur einnig pulsuna og aðra skyndibitarétti. Við reynum að segja að samlokan okkar er heil máltíð og eigi að duga, t.d. í hádeginu,“ segir Klemenz, sem er næringarfræðingur að mennt og hugsar um hollustu þess sem fólk setur inn fyrir varir sínar.
„Brauðmeti er alltaf hollt. Brauðið eru kolvetni og það sem er á milli er kjöt eða fiskur og það eru protein. Fituinnihaldinu er stillt í hóf, þannig að samlokur og langlokur eru alveg ágætis fæða. Það kemur ekkert í staðinn fyrir ávexti og grænmeti, en þetta er það næstbesta,“ segir Klemenz og bætir við að miðað við annan skyndibita á markaðnum þá séu vörurnar frá Nordic Deli mjög holl og góð lína.
Umtalsverð fjölgun starfa í sumar
- Framleiðsla á Nordic Deli verður til úr samdrætti í framleiðslu fyrir flugið, þar sem margir misstu vinnuna hjá ykkur. Þið náið þó að skapa þó nokkuð af störfum með þessari framleiðslu, sem annars væru ekki til?
„Já, ef við horfum eingöngu á framleiðslu á vörum Nordic Deli, þá er sú framleiðsla ein að skapa á milli 20-30 störf hér hjá eldhúsinu, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur og yfir sumartímann sjáum við þennan starfsmannafjölda þrefaldast og jafnvel fjórfaldast í eldhúsinu og við þurfum að fjölga starfsfólki umtalsvert í sumar, bara vegna samlokugerðarinnar. Með því að ráðast í framleiðslu á Nordic Deli vörulínunni höfum við náð að ráða flest alla til baka sem misstu vinnuna þegar samdráttur var í framleiðslu fyrir flugið“.
Klemenz segir allt benda til þess í dag að það verði mikil aukning hjá flugeldhúsinu í sumar miðað við síðasta sumar. Þar ráði samlokugerðin miklu og gert sé ráð fyrir þreföldun í framleiðslu í ár miðað við síðasta ár. „Við horfum bjartsýn til þess að þessi framleiðsla veiti fyrirtækinu arð og fólki á Suðurnesjum atvinnu,“ segir Klemenz Sæmundsson forstöðumaður flugeldhúss Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli, IGS, í samtali við Víkurfréttir.
Brauðtertur, snittur og mötuneytisþjónusta
Auk þess að framleiða máltíðir fyrir flugvélar í millilandaflugi og samlokur fyrir innanlandsflugið sér flugeldhús IGS um mötuneyti fyrir fyrirtæki á flugvallarsvæðinu. Þá er flugeldhúsið í veisluþjónustu og býður upp á snittur og brauðtertur. Höfuðáherslan er þó fyrst og fremst á þjónustu við flugið og auk Icelandair er flugeldhúsið með samninga við SAS, Miami Air, Ryan International og þjónustar einkaflugvélar sem millilenda hér á landi. Klemenz segir þó að helstu vaxtarmöguleikar eldhússins sé í samlokugerðinni og þar horfi menn björtum augum til framtíðar.