Sameina krafta sína á nýrri stofu
Hárstofan, ný hárgreiðslustofa var á dögunum opnuð í verslunarmiðstöðinni við Víkurbraut í Grindavík. Á stofunni starfa þær Margrét Erla Þorláksdóttir, Þórdís Jóna Guðmundsdóttir, Edith Þóra Pétursdóttir og Anna María Reynisdóttir. Nóg er að gera á Hárstofunni og þegar blaðamaður Víkurfrétta kíkti við var stemmningin líkt og í félagsmiðstöð. Margrét Erla segir fólk oft kíkja við og fá sér kaffi þegar það er að versla í verslunarmiðstöðinni. „Það er svo félagsleg athöfn að fara í klippingu. Sérstaklega í svona litlu bæjarfélagi þar sem flestir þekkjast. Við erum allar mjög ánægðar með staðsetninguna á nýju stofunni,“ segir hún.
Allar hafa þær fengist við hárgreiðslu í langan tíma en Anna María þó lengst, í yfir þrjá áratugi. Hún segir fagið þó alltaf jafn skemmtilegt og spennandi. „Ætli ég endi ekki bara í sjálfboðavinnu við hárgreiðslu á jafnöldrum mínum í Víðihlíð þegar ég fer þangað,“ segir Anna María í léttum dúr en Víðihlíð er hjúkrunarheimili fyrir aldraða.
Á Hárstofunni er boðið upp á hárvörur frá Kérastase.