Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

  • Reif í sundur videótæki sex ára
  • Reif í sundur videótæki sex ára
Þriðjudagur 19. maí 2015 kl. 13:45

Reif í sundur videótæki sex ára

– Fjöltengishönnuðurinn sem varð í 2. sæti um Gulleggið.

Tæknifræðingurinn og frumkvöðullinn Sigurður Örn Hreindal Hannesson útskrifaðist úr tæknifræðináminu frá Keili seinasta sumar sem Mekatróník hátæknifræðingur. Hann lenti í 2. sæti í frumkvöðlakeppninni Gullegginu og ætlar að beita sér fyrir því að efla kynningarstarf í tæknifræði og frumkvöðlastarfsemi á Suðurnesjum. Víkurfréttir heyrðu í Sigurði og spurðu hann út í námið og drauma sem hann hefur látið rætast.

„Ég flutti á Ásbrú þegar ég var í viðskiptafræði í HÍ og fékk nóg af þeirri grein. Ég var í raun með meiri áhuga á vélum og rafmagni og það var bara á svæðinu beint fyrir framan mig í Eldey,“ segir Sigurður Örn. Mekatronik fræðin hjá Keili eru blanda af véla- og tæknifræði og Sigurður rifjar upp að hafa snemma fengið áhuga á slíku. „Ég var örugglega svona sex þegar ég prófaði að rífa í sundur videótæki og fikta í litlum rafíhlutum. Ég bjó til 10 klukkutíma videóspólu þegar slíkar spólur voru 4 tímar að lengd og 8 tímar á ‘longplay’. Ég bjó bara til mína eigin úr nokkrum spólum.“

Lifandi vísindi og Nýjasta tækni og vísindi

Eftir það fékk Sigurður enga sérstaka kennslu í áhugamálum sínum fyrr en hann kom í Keili. „Þá byrjaði maður að læra hvað maður hafði verið að gera með fiktinu öll árin. Ég hafði verið áskrifandi að Lifandi vísindum, á marga bunka af þeim. Man líka vel eftir Nýjustu tækni og vísindum í sjónvarpinu,“ segir Sigurður, sem lenti í öðru sæti í frumkvöðlakeppninni Gullegginu í ár, með hönnun sína fjöltengið. „Hugmyndin kom til mín þegar ég fékk nýja skrifstofu í Eldey og þar voru bara tveir tenglar fyrir raftækin mín og ég var með fulla skúffu af alls kona fjöltengjum. Það var alveg sama hvernig ég púslaði þessu saman, það kom alltaf klaufalega út; alltof margar snúrur og passaði ekki. Ég ákvað að hanna eitthvað fyrir sjálfan mig sem virkaði fyrir mig. Svo braut ég þetta niður í einingar og þá var þetta orðið einstaklingsmiðað og nýttist fyrir alla.“

Hætti að mæta í skólann

Spurður um hvað hafi komið til þess að hann vakti athygli á fjöltenginu. „Ég fékk hugmyndina 1. janúar og átti skissu sem ég teiknaði upp á og merkti með dagsetningu. Ég var reyndar í viðbótarnámi í Keili eftir að ég útskrifaðist, tók nokkra áfanga í orku- og umhverfistæknifræði líka. Svo var greinilega of mikið að gera hjá mér í kringum þessa hugmynd að ég hætti að mæta í skólann og gat ekki mætt meira. Ég ákvað því að senda viðskiptaáætlun í Gulleggið og komst áfram. Í framhaldi af því fór ég að gera almennilegar hannanir og teikningar og lenti í öðru sæti.“

Margir til í að aðstoða

Aðal hindranir í svona nýsköpun segir Sigurður vera að fá fjármagn. „Ég hef verið að vinna launalaust að þessu. Aðalatriðið er að fá fjármagn og skipuleggja tímann. Það tekur langan tíma að koma svona verkefni í gang. Ekki gefast þó upp - halda áfram þar til árangri er náð.“ Aftur á móti segir Sigurður að auðveldara hafi verið en hann bjóst við að fá aðra til að taka þátt, samstarfsaðila og slíkt. „Maður á bara að taka upp símann og hringja í fólk. Það virðast allir reiðubúnir að aðstoða á einhvern hátt. Ekki sitja með hugmynd í maganum og láta engan vita. Fólk getur hjálpað við að koma hlutnum í gang,“ segir Sigurður að endingu.

(Þetta efni er úr blaðauka um Ásbrú sem fylgdi Víkurfréttum í maí).

Eldey á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024