Rafmagnað fjör í nýjum Kia hjá Kjartani
„Þetta er orðið ansi rafmagnað. Ætli það sé ekki um 80% bíla sem við höfum selt á þessu ári rafmagnsbílar,“ sagði Kjartan Steinarsson þegar nýr Kia EV9 bíll var kynntur á bílasölunni síðasta fimmtudag.
Þessi nýi bíll er vígalegur og stór og drífur langt þó hann sé tvö og hálft tonn að þyngd án farþega. „Þetta er magnaður bíll, mjög vel útbúinn, fjórhjóladrifinn og tilbúinn í hvað sem er,“ sagði Kjartan en fjölmargir tóku prufurúnt á þessum nýja rafbíl frá Kia.
Drægnin á Kia EV9 er 522 km. og dráttargetan 2,5 tonn. Það þarf að snara út þrettán og hálfri milljón en Kjartan segir að það sé hverrar krónu virði. Bíllinn er sex sæta og farþegar í fyrstu og annarri sætaröð geta haft það huggulegt á meðan bíllinn er í hleðslu. Þá er t.d. hægt að snúa aftursætum í hálfhring og blanda geði við farþega í þriðju röðinni.