Rafbílarnir hafa engin áhrif á starfsemi smurstöðva
Smurstöðin KEF í fullu fjöri þó Básinn hafi lokað
Fjölgun rafbíla hefur engin áhrif á starfsemi smurstöðva. „Það er nóg að gera hjá okkur og frekar aukning ef eitthvað er,“ segir Aðalbjörn Kristinsson, sem rekur Smurstöðina KEF við Vatnsnesveg í Keflavík. Aukninguna má eflaust rekja til þess að íbúum Suðurnesja hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum. Það er mesti misskilningur að smurstöðin við Vatnsnesveg hafi lokað þegar Olís lokaði versluninni Básnum. „Við erum ekkert að fara neitt eins og er og verðum hérna næstu árin. Fólk getur því alveg kíkt í kaffi til okkar á meðan það lætur smyrja bílinn.“
Smurstöðin KEF gefur sig út fyrir almenna smurþjónustu og smáviðgerðir. Í þeirri þjónustu felast bremsuskipti og að skipta um ballansstangarenda og stýrisenda, svo eitthvað sé nefnt og er vinna sem tekur ekki langan tíma. „Þá erum við farnir að taka að okkur að skola út sjálfskiptingar og það er orðið meira um það í dag,“ segir Aðalbjörn. Hann segir að það þurfi að hugsa vel um skiptingarnar eins og vélarnar. Með því að skola út sjálfskiptingar sé öll olía tekin af þeim en þegar tappað er af þeim á hefðbundinn máta fer jafnvel ekki nema helmingur af gömlu olíunni út af skiptingunni. Þegar sjálfskiptingin hefur verið skoluð út þá er sett alveg ný olía inn í staðinn.
Alinn upp við að fara á Smurstöð Björns og Þórðar
Aðalbjörn keypti rekstur Smurstöðvar Björns og Þórðar árið 2019 og skipti þá um nafn á stöðinni. Hann hafði verið í eigin rekstri í mörg ár en ákvað árið 2014 að fara að vinna fyrir aðra. „Ég entist í því í fimm ár og ákvað þá að ég vildi vera minn eigin herra og keypti því þennan rekstur. Mér líður best í vinnu hjá sjálfum mér.“
Aðalbjörn segist hafa alist upp við Smurstöð Björns og Þórðar. Hann hafi alltaf farið þangað með sína bíla í smurþjónustu. Það hafi einnig stór hópur viðskiptavina gert og þeir hafa haldið tryggð sinni við smurstöðina eftir að Aðalbjörn keypti hana og hann segir að það hafi bæst í viðskiptamannahópinn.
„Við erum með meiri fjölbreytni og erum að gera meira heldur en fyrri eigendur. Þeir voru búnir að skila sínu og þá var bara gott að aðrir tóku við.“
Olíur að breytast og að verða þynnri
Aðspurður hvort smurþjónusta væri eitthvað öðruvísi í dag með nýjum bílum heldur en hún var áður, þá segir Aðalbjörn að uppistaðan sé sú sama. Olíur eru hins vegar að breytast og verða þynnri en áður. Það sé ekki langt í að smurolíur verði af svipaðri þykkt og dísilolía, laufþunnar. Þynnri olíur eru í dag komnar á Hybrid-bílana. Það er heldur ekki sama olían á alla bíla og Smurstöðin KEF er með yfir 20 tegundir af smurolíum. Smurstöðin er með kerfi þar sem slegið er inn bílnúmeri og þá koma upp allar upplýsingar um hvaða olíur á að nota. Þá fá allir bílar í þjónustu sína bók og smursaga bílsins er skráð. Þá er yfirleitt hægt að fá allar rúðuþurrkur og ljósaperur í bíla og í raun það eina sem fólk hefur verið að spyrja um og er ekki í boði er rafgeymasala.
Sumarið er smurvertíðin
Aðspurður hvort það væri einhver vertíðartími í smurþjónustnni segir Aðalbjörn að mun meira sé að gera yfir sumartímann. Það ráðist mikið af ferðalögum fólks, en flestir keyri meira yfir sumarmánuðina en á öðrum árstímum. Þá er miklu meira að gera og þá hafi hann þurft að bæta við sig mannskap. „Þegar fólk fer í frí þá vill það vera með bílinn kláran og allt í standi,“ segir Aðalbjörn.