Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Öryggismál hjá bílaleigum rædd í Keflavík
    Frá átaki á síðasta ári þar sem búnaður bílaleigubíla var kannaður.
  • Öryggismál hjá bílaleigum rædd í Keflavík
    Frá átaki á síðasta ári þar sem búnaður bílaleigubíla var kannaður.
Laugardagur 26. apríl 2014 kl. 09:45

Öryggismál hjá bílaleigum rædd í Keflavík

Haustið 2013 gerði VÍS ítarlega úttekt á gæða- og öryggismálum hjá bílaleigum sem eru í viðskiptum við fyrirtækið ásamt þeim sem óskuðu eftir tilboðum. Almennt má segja að viðhorf til forvarna sé gott og bílaleigur vinni að þeim. Þó er misjafnlega vel að verki staðið eins og nærri má geta og verður nánar farið í saumana á því á fundi fyrir fulltrúa bílaleiga sem VÍS stendur fyrir ásamt Samgöngustofu, Landsbjörg og lögreglunni 29. apríl á Flughótelinu í Reykjanesbæ. Þar verður einnig fjallað um frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, hálendisvakt Landsbjargar og hvert hlutverk og ábyrgð bílaleiganna er gagnvart öryggi viðskiptavina. Þetta kemur fram í frétt frá VÍS.
 
Bílaleigum hefur fjölgað um 120% á sex árum samkvæmt umfjöllun Viðskiptablaðsins fyrir skemmstu og ljóst að mikið „gullgrafaraæði“ hefur runnið á margan. Þessi mikli vöxtur samhliða því að eftirliti er mjög ábótavant, vakna spurningar um hvernig fyrirtækin sinna gæða- og öryggismálum? Hvernig er ástand bílanna og eru viðskiptavinir fræddir um aðstæður hér á landi áður en þeir aka af stað? Aðstæður á Íslandi eru að mörgu leyti óvenjulegar og ólíkar því sem ferðamenn þekkja almennt.  Það er því mikilvægt að þeir sem hyggjast aka um Ísland fái ekki bara bíl í fullnægjandi standi heldur líka ítarlega kynningu og upplýsingar um aðstæður og unnt er. Svo sem um malarvegi, einbreiðar brýr, lausagöngu búfjár, hámarkshraða osfrv. 
 
Ef skoðuð eru tjón hjá bílaleigum á 10 ára tímabili kemur í ljós að algengasta er að bakkað sé á eða í rétt tæplega fjórðungi allra tjóna. Tjónin sem mestum áhyggjum valda eru hins vegar veltur og útafakstur því í þeim verða alvarlegustu slysin. 
 
Um þriðjungur bílveltna verða á möl eða þar sem verið er að gera við bundið slitlag. Oft á tíðum er þetta á skilum malbiks og malarvegar. Í öðrum þriðjungi verða velturnar í hálku eða snjó. Í því tilliti má velta upp spurningunni um hvort og hvernig ferðamenn eru upplýstir um aðstæður hér að vetri?
 
Hraðakstur er einnig áhyggjuefni. Fjöldi ferðamanna kemur frá löndum þar sem töluvert hraðari akstur er leyfður en hér. Morgunblaðið greindi frá því á vef sínum í haust að erlendir ferðamenn hefðu skilið eftir sig ógreiddar hraðasektir fyrir um 40 milljónir króna á árinu 2012. Það gefur í það minnsta vísbendingu um að þetta sé raunverulegt áhyggjuefni. 
 
Ætla má að ferðamönnum fjölgi hratt næstu ár eins og þau síðustu. Eru vegakerfið og ferðamannastaðir í stakk búin fyrir slíkt? Getur t.d. verið að aðstæður á sumum af okkar fjölsóttust stöðum séu þannig að töluverðar líkur séu á að bakkað verði á eða ekið á kyrrstæðan bíl? Er það einkamál bílaleiga að fræða ferðamenn um akstur á malarvegum eða á Vegagerðin að vara fólk við hættulegum aðstæðum með meira afgerandi hætti en nú er? Til dæmis með þrengingum eða blikkandi ljósum líkt og gert er við einbreiðar brýr? Eftirlit með bílaleigum þarf að vera mun skilvirkar en raun ber vitni. Í frumvarpi að lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja eru rýmri heimildir til eftirlits og sektarákvæði við brotum á þeim, en það er lítils virði ef kröftugt eftirliti er ekki til staðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024