Önnur stærsta bolfiskhöfn landsins skilar tekjum eins og meðal sjoppa
- Framkvæmdir framundan fyrir milljarð króna
Grindavíkurhöfn er önnur stærsta höfn landsins þegar kemur að lönduðum bolfiskafla. Þar var landað 43.400 tonnum á síðasta ári í 2500 löndunum. Fiskurinn skapar um 20-25 milljarða króna gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Þrátt fyrir þetta eru tekjur hafnarinnar bara eins og hjá meðal sjoppu, svo vitnað sé til hafnarstjórans, Sigurðar A. Kristmundssonar, sem sagði tekjurnar um 200 milljónir króna á síðasta ári. Framundan eru framkvæmdir við höfnina upp á um einn milljarð króna þar sem hlutur Grindavíkurhafnar verður um 400 milljónir króna. Víkurfréttir tóku hús á hafnarstjóranum og kynntu sér höfnina ásamt því að fara í lóðsverkefni eins og sjá mátti á forsíðu blaðsins í síðustu viku.
2500 landanir á síðasta ári
Hjá Grindavíkurhöfn starfa fjórir fastir starfsmenn sem skipta með sér vöktum. Einn af þeim er að komast á aldur á árinu, er að verða 70 ára og má ekki vinna lengur, þannig að ef það er einhver sem les þetta sem hefur áhuga á að gerast hafnarstarfsmaður í Grindavík, þá er að losna staða. Hafnarstarfsmenn sjá um að skipa skipum í legupláss og þjónusta þau með því m.a. að tengja þau landrafmagni og afgreiða um vatn. Þá veita þeir hafnsögu og aðrar upplýsingar, auk þess að vigta fisk en gríðarlega mikil vigtun fer fram á hafnarvoginni í Grindavík. Í fyrra voru t.a.m. 2500 landanir í Grindavíkurhöfn.
- Árið 2015 var gott hjá Grindavíkurhöfn?
„Já, það var framar vonum. Við fengum að landi um 43.400 tonn sem er töluvert meira en við áttum von á, þannig að við erum bara mjög sátt.“
- Hvernig er rekstur hafnarinnar að ganga. Hann hefur breyst nokkuð á síðustu árum í umfangi?
„Aflasamsetningin er öðruvísi núna. Við vorum að fá meira af bolfiski, sem er verðmætari, en minna af makríl í staðinn. Aflaaukningin skýrist mest af því að Vísir flutti vinnsluna sína hingað til Grindavíkur og vinnur allan sinn fisk hér. Bátar fyrirtækisins hafa því meira landað hér, þó svo fyrirtækið keyri einnig eitthvað af fiski sem bátar fyirtækisins landa úti á landi. Vísir var þ.a.l. með 35% meiri löndun í Grindavík í fyrra en árið áður.“
- Þegar við horfum yfir árið á starfsemina við höfnina. Er hún breytileg á milli mánaða?
„Já. Fyrri hluta ársins er meira að gera við höfnina. Þá er styttra á miðin héðan og bátarnir landa í heimahöfn. Við fáum einnig gesti frá Snæfellsnesi og af Vestfjörðum. Þá hafa bátar frá Skinney-Þinganesi á Höfn verið duglegir að landa hjá okkur“.
Nær allur aflinn til vinnslu í Grindavík
Nær allur afli sem landað er í Grindavík fer í vinnslu í Grindavík en þó er ein útgerð, Gjögur, sem keyrir mikið af sínum afla norður á Grenivík til vinnslu í fiskvinnslustöð sinni þar. Bæði Vísir hf. og Þorbjörn hf. eru með öflug línuskip sem gerð eru út frá Grindavík og þá er þar einnig fjöldi smábáta.
Grindavíkurhöfn er mjög stór í bolfiski og er önnur stærsta höfn landsins þegar kemur að bolfiskkvóta og löndun á bolfiski á eftir Reykjavík. Hins vegar er mun minna um að uppsjávarfiski sé landað í Grindavík eftir að fiskimjölsverksmiðjan brann um árið.
Endurnýja Miðgarð
Í Grindavíkurhöfn eru rétt um 1000 metrar af viðlegukanti og ástandið er mismunandi. Þannig var Miðgarður byggður á árunum 1965 til 67 og þar er komið að miklum endurbótum. Viðlegukanturinn er ónýtur fyrir neðan sjávarmál, þó svo það sáist ekki á yfirborðinu. Endurbætur á Miðgarði, sem er um 200 metra langur, kosta um einn milljarð króna. Reka þarf niður nýtt stálþil um einn og hálfan metra út frá núverandi viðlegukanti. Þá á að dýpka höfnina við nýja viðlegukantinn og fara með dýpið í 8 metra. Það er nauðsynlegt þar sem djúprista skipa er alltaf að verða meiri og meiri. Nýrri skip rista dýpra. Þau eru byggð meira niður á við í dag þó svo þau séu jafnvel ekki að verða lengri.
Sigurður hafnarstjóri segir að ríkið megi styrkja stálþil um 75% af kostnaði og dýpkun um 60%. Gert er ráð fyrir að kostnaður Grindavíkurhafnar vegna framkvæmdarinnar verði um 400 milljónir króna.
„Það er ansi mikið fyrir Grindavíkurhöfn. Þó að vel gangi hjá höfninni þá eru árstekjur hennar aðeins eins og hjá meðal sjoppu eða um 200 milljónir króna á síðasta ári“.
- Fylgir þessu mikið rask fyrir Grindavíkurhöfn?
„Já, það má búast við því þegar svona stór bryggja fer undir, þá mun það valda einhverju raski. Ég held reyndar að það sé fullur skilningur á því hjá öllum sem hér koma að að þetta þarf. Það vita það allir og við munum vinna saman að því að gera þetta eins auðvelt og mögulegt er.“
Opin fyrir öllum nýjungum
Grindavíkurhöfn tók á móti fyrsta skemmtiferðaskipinu á síðasta ári og með nýjum Miðgarði og meira dýpi þar þá eru möguleikar hafnarinnar mun meiri til frekari útrásar á því sviði. Möguleikar Suðurnesja í ferðaþjónustu séu vaxandi og móttaka skemmtiferðaskipa hefur ekki verið framarlega á blaði. „Við erum opin fyrir öllum nýjungum,“ segir hafnarstjórinn.
Um Grindavíkurhöfn fer afli sem skapar um 20-25 milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári. Höfnin er einnig ein stærsta innflutningshöfn landsins þegar kemur að salti en um 25% af þeim 90.000 tonnum sem árlega eru flutt til Íslands koma til Grindavíkur og eru notuð í saltfiskvinnslu í Grindavík og nærsveitum. Saltið kemur frá Miðjarðarhafinu og ferðast því um langa leið. Það fer svo á saltfiskinn í Grindavík og með fisknum aftur niður til Miðjarðarhafsins. Það er því ákveðin hringrás sem saltið fer. Saltið kemur til Grindavíkur í mörgum förmum en áætlaðar saltskipakomur eru um 20 á ári.
Öflugur hafnsögubátur og aðstoð frá björgunarskipi
- Þið veitið hafnsöguþjónustu og eruð með myndarlegan hafnsögubát?
„Já, Bjarna Þór, í höfuðið á fyrrverandi hafnarstjóra hér í Grindavík. Hafnsögubáturinn er notaður til að flytja lóðs um borð í skip sem þurfa slíka þjónustu til að sigla um innsiglinguna til og frá Grindavíkurhöfn. Hafnsögubáturinn er svo notaður innan hafnar ef það þarf að ýta eða toga.“
Grindavíkurhöfn hefur einnig nýtt sér björgunarskipið Odd V. Gíslason ef það þarf viðbótaraðstoð við hafnsögubátinn. Þá hefur hafnsögubáturinn einnig aðstoðað björgunarsveitina Þorbjörn í verkefnum, t.a.m. þegar slasaðir eða veikir sjómenn hafa verið sóttir um borð í skip fyrir utan innsiglinguna.
Svæði fyrir frystigeymslu á landfyllingu
Innsiglingin til Grindavíkur er gjörbreytt eftir að þar voru bættar sjóvarnir og innsiglingarrennan gerð dýpri og breiðari. Þá hefur verið unnið við landfyllingu við innsiglinguna og þar segir Sigurður hafnarstjóri að skipulag geri ráð fyrir að byggð verði frystigeymsla. Sigurður segir nóg land við Grindavíkurhöfn sem hafi mikla vaxtarmöguleika og geti tekið á móti mörgum fyrirtækjum til viðbótar við þau sem fyrir eru. Höfnin þarf helst að auka tekjur sínar. Þær eru um 200 milljónir króna á ári í dag en þyrftu að vera um 50-60 milljónum króna hærri til að ráða vel við þá framþróun sem þarf að eiga sér stað við höfnina. Þrátt fyrir það segist Sigurður hafnarstjóri horfa björtum augum til framtíðar.
Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson // [email protected]