Omnis semur við Grindavíkurbæ
Á dögunum undirrituðu Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar og Eggert Herbertsson framkvæmdastjóri Omnis ehf. samning um að starfsmenn Omnis taki að sér umsjón með miðlægum tölvukerfum Grindavíkurbæjar.
Eggert Herbertsson segist að vonum mjög ánægður með að Grindavíkurbær bætist í hóp viðskiptavina fyrirtækisins. „Sveitarfélögum sem nýta sér þjónustu okkar hefur fjölgað og nú sinnum við mismunandi þörfum tíu þeirra á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Starfsmenn sveitarfélaga eru mjög kröfuharðir viðskiptavinir og því mjög ánægjulegt að okkar starfsmenn standir þær kröfur sem gerðar eru, bæði fjárhagslega og tæknilegar.“
Róbert Ragnarsson segir að þessi útvistun umsjón ar með tölvukerfum bæjarfélagsins hafi verið tekin að vandlega athuguðu máli og að lokum hafi verið ákveðið að ganga til samninga við Omnis. „Omnis hefur sinnt þjónustu við sveitarfélög hér á svæðinu og reynsla starfsmanna þeirra varð til þess að við ákváðum að ganga til þessara samninga.“
Upplýsingatæknifyrirtækið Omnis ehf. er með rekstur á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi og eru starfsmenn þess í dag um 40 talsins.