Omnis rekur tölvukerfi Garðs
Á dögunum gengu Omnis og Sveitarfélagið Garður formlega frá samningi um rekstur tölvukerfis sveitarfélagsins. Nær samningurinn yfir notendaþjónustu við allra stofnanir sveitarfélagsins, rekstur á miðlægum búnaði og afritun. Starfsmenn Omnis hafa sinnt þessari þjónustu undanfarið ár og er því komin mjög góð reynsla á þjónustuna.
Ásmundur Friðriksson sveitarstjóri í Garði er ánægður með samstarfið. „Síðastliðið sumar réðumst við í endurbætur á tölvukerfinu með aðstoð Omnis. Síðan hefur kostnaður við rekstur þess verið í lágmarki. Við erum líka ánægðir með þjónustulipurðina hjá þeim.“
Samningurinn byggir á rammasamningi Ríkiskaupa og Omnis, sem tók gildi á liðnu hausti. Með honum öðlast stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga aðgang að tækniþjónustu Omnis á mjög hagstæðu verði. Bjarki Jóhannesson markaðsstjóri Omnis segir samninginn mikla viðurkenningu fyrir starfsmenn fyrirtækisins í sókn þeirra inná kröfuharðan markað opinberra fyrirtækja.