Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Ókeypis gisting á Hótel Keflavík
Mánudagur 3. desember 2012 kl. 08:54

Ókeypis gisting á Hótel Keflavík

Hótel Keflavík býður upp á fría gistingu á hótelinu í desember í ellefta sinn og styður þannig við verslun og þjónustu í Reykjanesbæ. Hótel Keflavík ætlar að styðja við verslun í Reykjanesbæ með því að bjóða upp á allt að 20 herbergi á dag sem gestir borga fyrir með því að framvísa kvittunum úr verslunum í Reykjanesbæ. Rétt er að árétta að gistingin er hugsuð fyrir fólk sem býr utan Suðurnesja en kemur til Reykjanesbæjar til að gera jólainnkaup og um leið að heimsækja vini og ættingja.
Gegn kvittun upp á 16.800 kr. fæst frí gisting í 2ja manna herbergi en sé framvísað kvittun upp á lágmark 20.800 krónur fæst gisting í fjölskylduherbergi. Að auki fylgir frír morgunmatur með gistingunni, en Hótel Keflavík er rómað fyrir sérlega glæsilegan morgunmat.

Steinþór Jónsson, hótelstjóri, segir nauðsynlegt að Suðurnesjamenn standi saman og versli heima fyrir jólahátíðirnar. Tilboðið á Hótel Keflavík stendur frá 1. til 20. desember og allt að 20 herbergi eru í boði á sólarhring.

Góð nýting hefur verið á Hótel Keflavík í ár og hafa haustmánuðirnir verið einstaklega góðir að sögn Steinþórs. Miklar breytingar hafa verið gerðar á hótelinu en skipt hefur verið um flesta glugga auk þess sem gólf hafa verið flísalögð.

Þeir einstaklingar sem hafa áhuga á að nýta sér þetta tilboð er bent á að panta herbergi áður en haldið er af stað í verslun og þannig tryggja sér næturgistinu. Einungis þarf að framvísa kvittunum í afgreiðslu Hótels Keflavíkur og gildir þar til jafns matarinnkaup sem og önnur innkaup hjá verslunum Reykjanesbæjar. Steinþór hvetur einnig Suðurnesjamenn til að ýta við vinum eða ættingjum sem búa utan Suðurnesja að nýta sér þetta frábæra tilboð.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024