Ógilda samruna Tempru og Plastgerðar Suðurnesja
- Fyrirtækin starfa bæði við framleiðslu og sölu á frauðplastkössum og frauðplasteinangrun
Samkeppniseftirlitið ógilti í dag samruna sem áformaður var með kaupum Tempru ehf. á öllu hlutafé í Plastgerð Suðurnesja ehf. Fyrirtækin starfa bæði við framleiðslu og sölu á frauðplastkössum og frauðplasteinangrun. Frauðplastkassar eru einkum nýttir við flutning á ferskum fiski en frauðplasteinangrun er aðallega notuð við húsbyggingar.
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn hefði það í för með sér að til yrði mjög öflugt fyrirtæki með nánast einokunarstöðu á markaði fyrir framleiðslu og sölu á frauðplastkössum annars vegar og markaði fyrir framleiðslu og sölu á frauðplasteinangrun hins vegar. Þá myndi samruninn leiða til umtalsverðrar breytingar á markaðsgerðinni þar sem mikilvægur keppinautur myndi hverfa af markaði. Fæli samruninn þannig í sér alvarlega röskun á samkeppni og væri til þess fallin að valda viðskiptavinum tjóni.
Samrunaaðilar lögðu fram tillögur að skilyrðum til þess að vinna gegn samkeppnishömlum sem stafað gætu af samrunanum. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að þessar tillögur myndu ekki duga til að koma í veg fyrir samkeppnishamlandi áhrif samrunans. Því telur eftirlitið óhjákvæmilegt að ógilda samrunann.
Ákvörðunin er aðgengilega á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins.