Nýtt upphaf í vegferð öryggismála til sjós
Á hádegisfundi með sjómönnum Vísis hf. í Grindavík á föstudegi um sjómannahelgi hófst ný vegferð í öryggismálum sjómanna hjá fyrirtækinu með undirritun á þriggja ára samstarfssamningi við Öryggisstjórnun ehf.
Tilgangur samstarfsins er að koma á samræmdum og stafrænum áherslum í skipulagi og framkvæmd öryggismála í útgerðarstarfsemi Vísis hf. Sömuleiðis koma á öryggisstjórnunarkerfi, bæði um borð í skipaflota félagsins sem og í landi með nýtingu stafrænna lausna, sem mun uppfylla alþjóðlega öryggisstaðla sem snúa að starfsemi félagsins. Bæði fyrirtækin byggja á traustum grunni og reynslu af nýsköpun sem mun nýtast í öryggisvegferðinni að gera Vísi hf. að leiðandi afli í öryggisstjórnun, öryggismenningu og nýsköpun öryggismála til sjós og lands.
„Það er sýn okkar að mikil tækifæri eru til staðar hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að samræma áherslur í öryggismálum til sjós. Við ætlum okkur að vera leiðandi og fyrirmynd á því sviði með áherslu á nýsköpun og nýtingu stafrænna lausna,“ segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.
„Erlendis er talað um að íslenskur sjávarútvegur sé nokkurs konar „Silicon Valley“ á heimsvísu í tengslum við nýsköpun, tækniþróun, hugvit og fiskveiðistjórnun í sjávarútvegi. Nú ætlum við að bæta við öryggismálum sjómanna á þennan lista í Kísildal íslensks sjávarútvegs,“ segir Gísli Níls Einarsson sérfræðingur hjá Öryggisstjórnun ehf.