Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 9. desember 1999 kl. 22:18

NÝSTÁRLEG HANDVERKSVERSLUN

Íslensk náttúra er í öndvegi við Ránargötuna í Keflavík þar sem Sævar Helgason, þúsundþjalasmiður mundar verkfærin Sævar Helgason opnaði á dögunum handverksverslun í skiltagerðinni Veghús við Ránargötu í Keflavík sem er götustúfur sem liggur neðan við símstöðina. Þar má finna handunna hluti af ýmsu tagi unna úr efnum úr íslenskri náttúru. Sævar smíðar sjálfur skilti fyrir gömul hús og sumarbústaði og fallega lampa úr rekaviði en hann er einnig með annars konar muni eftir íslenskt handverksfólk. „Nú er ég að smíða þrjú skilti sem fara til Noregs, Bandaríkjanna og alla leið suður til Spánar. Lamparnir mínir hafa verið nokkuð vinsælir en rekaviðinn týndi ég á Mýrdalssandi. Nú er ég með nokkra lampa úr eik en þeir eru allir úr bátnum Farsæl sem strandaði við Hjörleifshöfða árið 1963“, sagði Sævar. Lamparnir eru því ekki einungis listmunir heldur einnig sögulegar minjar. Lampaskermarnir hafa vakið athygli fyrir sérstakt útlit og fallegt handbragð en Elín Kjartansdóttir veflistakona, frá Tóverkinu Tumsa í Aðaladal, og skermagerð Bertu í Garðabæ eiga heiðurinn af þeim. Skermarnir eru handofnir úr alaskavíði, hrosshári og leðri. Í Veghúsum má finna fallega penna úr íslensku birki og lerki. Pennarnir fást í öskju og hægt er að láta grafa nafn viðtakanda og tilefnið á öskjuna. Einnig er hægt að fá gestabækur fyrir aldamótin úr birki og klukkur eftir Grétar Ellertsson, en þær eru unnar úr íslensku birki og rekaviði. Sævar sagði að aðsóknin hefði verið góð en hann hefði það stundum á tilfinningunni að fólk liti ekki út af Hafnargötunni þegar það færi að versla. „Ef að fólk er að leita að einhverju sérstöku til gjafa þá er ég með fullt hús af vörum og enginn hlutur er eins“, sagði Sævar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024