Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Nýr útibússtjóri Landsbankans Íslands í Keflavík
Fimmtudagur 2. desember 2004 kl. 11:00

Nýr útibússtjóri Landsbankans Íslands í Keflavík

Friðgeir Magni Baldursson tók við starfi útibússtjóra Landsbankans í Keflavík í síðustu viku. Hann ekki alls ókunnugur svæðinu því að hann var svæðisstjóri yfir Suðurnesjum, Suðurlandi og Hafnarfirði í þrjú ár fram í nóvember í fyrra. „Svo var ég útibússtjóri í Grindavík í tvö ár frá 1996 til 1998 þannig að það má segja að ég þekki bæði menn og málefni á svæðinu. Þetta er því svolítið eins og að koma til baka."

Friðgeir, sem var útibússtjóri á Selfossi síðasta árið, hefur unnið hjá Landsbankanum frá því að hann lauk námi sem rekstrarhagfræðingur frá Háskólanum í Stokkhólmi árið 1990. Hann er giftur Björgu Pétursdóttur og eiga þau fimm börn frá aldrinum 29 ára til 8 ára. Hann segir að ákvörðunin um að færa sig frá Selfossi til Keflavíkur hafði ekki haft langan aðdraganda.
„Það var ekki síst fyrir mín orð að ég færði mig yfir nánast samdægurs því mér finnst sjálfum óþægilegt að sitja á einum stað og hugsa um annan. Ég átti líka góðan staðgengil sem tók við af mér á Selfossi."
Friðgeir segist lítast vel á starfið sem og allt umhverfi í Reykjanesbæ og á svæðinu. „Mér sýnist að hér sé mikið um að vera og ég er búinn að ræða við marga síðan ég kom. Menn tala um þessa uppbyggingu sem er að eiga sér stað þar sem er skortur á lóðaframboði og jafnvel iðnaðarmönnum þannig að hér er heilmikið um að vera og er gaman að taka þátt í því."

Fjölskylda Friðgeirs býr enn á Selfossi þannig að hann keyrir á milli á hverjum degi. „Ég nýt góðs af því að skoða landið á leiðinni í vinnu þannig að þetta er ekki stórt vandamál. Sérstaklega þar sem við höfum varla séð snjó hér í mörg ár.
Ég tek við góðu búi með góðum mannskap þar sem við erum með öfluga starfsemi hér í Reykjanesbæ og Sandgerði auk flugvallasvæðisins. Við hugsum fram á veginn og þetta er spennandi verkefni sem á vel við mig."

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024