Nýr fjármálastjóri til Omnis
Halldór Jónsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Omnis ehf. Halldór hefur undanfarin misseri unnið sem fjármálastjóri hjá Trésmiðju Þráins Gíslasonar sf. Hann hefur mikla reynslu af fyrirtækjarekstri og þá aðallega í sjávarútvegi, en frá 1986 til 2002 starfaði Halldór í ýmsum stjórnunarstörfum í sjávarútvegsfyrirtækjum á Vestfjörðum. Frá árunum 2002 til 2007 starfaði Halldór sem blaðamaður, meðal annars hjá Skessuhorni. Halldór er í sambúð með Dagrúnu Dagbjartsdóttur og eiga þau tvíbura, Eggert og Þóri fædda 1998.
Omnis hefur á undanförnum mánuðum vaxið mjög ört, þá aðallega með sameiningum og uppkaupum á fyrirtækjum í sambærilegum rekstri. Omnis er alhliða upplýsingatæknifyrirtæki með meginstarfsemi í Reykjanesbæ, Akranesi og Borgarnesi. Fyrirtækið rekur þrjár verslanir og verkstæðisþjónustu fyrir einstaklinga á þessum svæðum, en er auk þess með öfluga fyrirtækjaráðgjöf og tækniþjónustu sem sinnir fyrirtækjum á Vesturlandi og Suðurnesjum. Omnis er einnig með útibú í Reykjavík enda er fyrirtækið að sinna tækniþjónustu fyrir fjölmarga viðskiptavini á því svæði einnig. Í dag starfa um 20 manns hjá fyrirtækinu.