Nýr eigandi Smart
Hafdís Lúðvíksdóttir, förðunarfræðingur, hefur tekið við rekstri verslunarinnar Smart í Hólmgarði en þær Margrét Haraldsdóttir og Helga Sigurðardóttir hafa rekið hana um árabil með glæsibrag. Vilborg Eckard, afgreiðslustúlka, er þó ekki á förum og heldur stöðu sinni á bakvið búðarborðið.Breytingar hafa verið gerðar á innréttingum verslunarinnar og er ekki hægt að segja annað en vel hafi tekist til. Hafdís mun halda áfram að bjóða upp á vörur frá Revlon og No Name en hún hefur einnig tekið inn herra- og dömuilmvatnslínu frá Lalique. „Ég ætla mér að auka vöruúrvalið til muna í undirfötunum, sérstaklega í stærri stærðum en ég mun einnig vera með náttfatnað, töskur slæður og skart. Í sumar ætla ég m.a. að vera með brúðarskart“, segir Hafdís og bætir við að með haustinu muni hún standa fyrir förðunarnámskeiðum á vegum No Name.Helga og Margrét vilja þakka viðskiptavinum sínum fyrir góðar móttökur á liðnum árum og þær vonast til að þeir taki vel á móti nýja eigandanum.