Nýir eigendur að Bústoð
Ungir heimamenn taka við af Róberti og Hafdísi sem hætta eftir 48 ár. Ætla að breikka vöruúrvalið og vera enn sýnilegri.
Eigendaskipti verða hjá Bústoð nú um mánaðamótin þegar Björgvin Árnason, sem hefur verið verslunarstjóri Bústoðar síðastliðin níu ár, kaupir rekstur verslunar innar ásamt Elmari Geir Jónssyni og meðfjárfestum. Seljendur eru Róbert Svavarsson, Hafdís Gunnlaugsdóttir og fjölskylda en þau hjónin stofnuðu Bústoð fyrir 48 árum síðan eða árið 1975.
Húsgagnaverslunin Bústoð hefur allt frá upphafi haft það að markmiði að bjóða upp á gæðavörur á góðu verði, meðal annars frá Calia Italia, Furnhouse og Skovby. Auk þess nýtur gjafavörudeild Bústoðar töluverðra vinsælda, með vörum frá Iittala, Bitz, Zone, KARE, Spa of Iceland, Vorhús og fleirum. Bústoð hefur ávallt verið staðsett í Reykjanesbæ og er til húsa að Tjarnargötu 2, þar sem verslunin verður áfram í rúmgóðum 1200 fm sýningarsal. Áfram verður byggt á gömlum grunni þó ákveðnar áherslubreytingar fylgi nýjum eigendum.
„Ég er með frábært teymi með mér og saman viljum við sækja enn frekar fram, bæði í heimabyggð, á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Bústoð er rótgróið fyrirtæki á íslenskum húsgagnamarkaði og til viðbótar því að vera með góð vörumerki, þar sem við höfum getað boðið upp á gæðavörur á góðu verði, höfum við lagt mikla áherslu á að sinna viðskiptavinum okkar vel. Það er lykillinn að árangri undanfarinna ára og við munum halda því áfram, ásamt því sem við ætlum okkur að breikka vöruúrvalið og vera enn sýnilegri,“ segir Björgvin Árnason.
Róbert Svavarsson segir að þau hjón séu stolt af því að hafa byggt upp þetta fyrirtæki í þessi 48 ár. „Svona gerist ekki nema að hafa frábært starfsfólk sér við hlið, sem við höfum alltaf haft og viljum við þakka þeim fyrir samstarfið í gegnum árin. Við þökkum viðskiptavinum okkar um land allt fyrir viðskiptin í þessi 48 ár. Jafnframt er það mikið ánægjuefni að vita til þess að fyrirtækið verður í góðum höndum hjá Björgvini og félögum. Fyrir þeim vakir að hlúa áfram að Bústoð, vörumerkjum og starfsfólki þess, sem veita viðskiptavinum okkar áfram framúrskarandi þjónustu. Við Hafdís göngum því sátt frá borði, full þakklætis eftir tæplega hálfa öld í rekstri.“
Í tilefni tímamótanna var haldið tímamótapartý í versluninni síðasta laugardag. Þar afhentu Róbert og Hafdís tveimur samtökum eina milljóna króna styrk hvoru; Parkinsonsamtökunum og Alzheimersamtökunum og tóku fulltrúar þeirra við gjöfunum og þökkuðu fyrir hlýhug Bústoðar hjónanna. Styrkir til samtakanna voru í minningu Magnúsar Sædals, bróður Róberts.