Nýir áfangastaðir frá Keflavíkurflugvelli í sumar
Amsterdam og Vilinius hjá Wow og stórt spænskt félag með flug til Barcelona.
Nokkrir nýir áfangastaðir hafa bæst við í þá flóru staða sem standa íslenskum ferðalöngum til boða. Sl. föstudagskvöld kom spænska lággjaldaflugfélagið Vueling í fyrsta sinn til Keflavíkur. Sautján flugfélög fljúga til 70 áfangastaða frá Keflavík í sumar.
Veling mun fljúga milli Keflavíkur og El Prat flugvallarins í Barcelona tvisvar í viku en félagið er næst stærsta flugfélagið á Spáni. Það er með höfuðstöðvar á El Prat og með áætlunarflug til meira en eitt hundrað áfangastaða í Evrópu, Asíu og Afríku. Ísland er eitt 32 nýrra áfangastaða félagsins í sumar.
Fyrr í mánuðinum hóf svo Wow air flug til tveggja nýrra áfangastaða, Amsterdam og Vilnius í Litháen en Wow mun fljúga á þessa staði tvisvar í viku.
„Þessum nýja áfangastað okkar hefur verið tekið mjög vel af Íslendingum og hafa bókanir inn á sumarið gengið framar björtustu vonum. Einnig hafa hollenskar ferðaskrifstofur tekið okkur mjög vel og sýnt Íslandi mikinn áhuga. Samkeppnin við Icelandair hefur verið kröftug og hafa Íslendingar án vafa fundið það með lækkandi verðum til þessa áfangastaðar. Við erum komin til að vera á Amsterdam og höfum einnig skoðað það að fljúga þangað allan ársins hring“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs WOW air.
-
-