Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Ný verslun með bílavörur á Fitjatorgi
Föstudagur 2. mars 2012 kl. 09:11

Ný verslun með bílavörur á Fitjatorgi

Valur Margeirsson hefur opnað verslun með bílavarahluti, bílavörur og vinnufatnað á Fitjatorgi á Fitjum í Njarðvík. Verslunin er opin virka daga frá kl. 07 að morgni til kl. 20 að kvöldi. Einnig er opið um helgar en þá í styttri tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í samtali við Víkurfréttir sagði Valur það vera gamlan draum að stússast í svona verslunarrekstri en í kjölfar þess að hann missti vinnuna hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli árið 2004 fór hann í verslunarrekstur og keypti rekstur á lítilli þjónustuverslun við bensínstöð Orkunnar á Fitjum. Honum og öðrum rekstraraðilum í húsinu hafði verið sagt upp húsaleigu þar sem til stóð að fara í breytingar á húsinu. Þau áform breyttust um áramót og Valur fékk boð um að leigja allt húsið. Hann lét slag standa og hefur nú opnað verslunina.


Mikið af þeim vörum sem Valur selur koma frá Poulsen og smátt og smátt bætist í vöruúrvalið. Þeir sem leita að viftureimum, bremsum, ljósum og ýmsu öðru fyrir bílinn ættu að kíkja við í verslunina til Vals. Þar eru einnig verkfæri, hreinsivörur og olíur.


Auk verslunarinnar á Fitjum þá eru Valur og samstarfsaðili hans, Jón Þór Önundarson, með bílaþjónustu. Hún hefur til þessa verið í Grófinni en er að flytja í nýtt húsnæði þar sem Vatnsafl var á Njarðarbraut í Njarðvík. Þar verður í boði að fá olíu- og dekkjaskipti, auk smáviðgerða. M.a. hafa þeir félagar sérhæft sig í bílum frá Volkswagen og Audi en þjónusta í raun alla bíla.


Til þess að vekja athygli á nýju bílabúðinni setti Valur blikkandi ljós í glugga verslunarinnar í rauðum og bláum litum. Í gærmorgun mætti hins vegar lögreglan og bannaði honum að hafa ljósin í glugganum. Valur segist hafa verið undrandi á þessu enda hafi það tíðkast í fjöldamörg ár að verslun með bílahluti í Reykjavík, Bílasmiðurinn, hefur verið með blikkandi forgangsljós í gluggum sinnar verslunar.