Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Ný komuverslun Fríhafnarinnar og 65 ára afmæli fagnað
Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, klippti á borða þegar verslunin var opnuð.
Sunnudagur 6. október 2024 kl. 06:01

Ný komuverslun Fríhafnarinnar og 65 ára afmæli fagnað

Ný komuverslun Fríhafnarinnar var opnuð formlega á dögunum eftir miklar endurbætur og stækkun. Við sama tækifæri var 65 ára afmæli félagsins einnig fagnað. Miklar framkvæmdir og breytingar hafa staðið yfir á Keflavíkurflugvelli að undanförnu og var nýr töskusalur tekinn í notkun á síðasta ári. Samhliða því var ráðist í það verkefni að stækka verslun Fríhafnarinnar sem hefur leitt til stórbættrar þjónustu fyrir viðskiptavini, bæði í vöruúrvali og aðgengi.

Nýja verslunin er 2.400 fermetrar að stærð og var megináhersla lögð á aukna afkastagetu við afgreiðslu og gott flæði um verslunina. Í komuversluninni eru nú 16 sjálfsafgreiðslustöðvar og fjórir mannaðir afgreiðslukassar. Fyrir breytinguna voru langar raðir í afgreiðslu helsti flöskuhálsinn og náðu raðir á kassa oft og tíðum langt inn eftir versluninni með tilheyrandi biðtíma og skertu aðgengi að stórum hluta verslunarinnar. Langar raðir heyra nú sögunni til sem er mikil bylting.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hönnun og skipulag verslunarinnar var unnið með breska hönnunarfyrirtækinu M Worldwide og innréttingar komu frá ítalska fyrirtækinu Imola Retail Solutions í samvinnu við Verslunartækni.

„Okkur þótti mikilvægt að verslunin, sem er fyrsta stopp ferðafólks á Íslandi, endurspeglaði íslenska náttúru og menningu. Litirnir, efnisvalið og innréttingarnar voru hannaðar með Ísland í huga,“ segir Þorgerður Þráinsdóttir framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. „Við tókum þá ákvörðun snemma í hönnunarferlinu að hafa einnig íslenskuna í forgrunni, þannig að flestar merkingar í deildum verslunarinnar eru einungis á íslensku. Við sjáum að þessi áhersla á Ísland hefur góð áhrif á upplifun viðskiptavina okkar. Íslendingar finna að þeir eru komnir heim og erlent ferðafólk fær góða upplifun af Íslandi strax frá fyrstu mínútu.”