Ný DutyFree verslun eingöngu með íslenskar vörur - m.a. frá Suðurnesjum
Á undanförnum vikum hefur starfsfólk Fríhafnarinnar og iðnaðarmenn á Suðurnesjum unnið hörðum höndum að breytingum á verslun Fríhafnarinnar á svokölluðu Schengen svæði. Á dögunum opnaði Iceland DutyFree en hún selur eingöngu íslenskar vörur, sem er kærkomin viðbót við þá flóru verslana sem fyrir eru í Flugstöðinni. Þar má finna snyrtivörur, sælgæti, áfengi, hárskraut, smáhatta, púsl og vörur frá Spíral á Suðurnesjum. Í stað þess að henda öllu út úr versluninni og kaupa nýtt var ákveðið að vinna með heimamönnum eins og kostur var, í að endurbæta og breyta því sem til var. „Þannig sláum við í raun og veru tvær flugur í einu höggi. Endurbæturnar verða ódýrari og Suðurnesjamenn fá verkefni,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar.
Við endurbæturnar vakti verslunin strax athygli enda nokkrar ljósmyndir prýða verslunina. Myndirnar eru úr gosinu í Eyjafjallajökli og úr Jökulsárlóni en Óli Haukur Mýrdal tók myndirnar. Myndir af eldingum í gosmekkinum frá Eyjafjallajökli eru einar af bestu náttúrumyndasyrpum ársins, að mati bandaríska tímaritsins National Geographic. Á vef blaðsins eru nú birtar tíu bestu myndasyrpur ársins. Þar á meðal eru sex myndir af eldingum sem lýsa upp gosmökkinn frá Eyjafjallajökli, ein af þeim er mynd Óla Hauks.
DutyFree Fashion
Spíral, hönnun þeirrar Írisar Jónsdóttur og Ingunnar Yngvadóttur gengur vonum framar í sölu í DutyFree Fashion og hafa útlendingar sýnt hönnuninni mikinn áhuga. „Við erum mjög bjartsýn hvar varðar framtíð Spíral enda hönnun þeirra mjög praktísk og skemmtileg,“ segir Ásta Dís og bætti við: „Við ætlum okkur stóra hluti hvað þetta varðar og vonum að þetta komi til með að hafa jákvæð áhrif á rekstur fyrirtæksins, þ.e að Spíral þurfi að ráða til sín fleiri starfsmenn til vinnu. Það er líka skemmtilegt til þess að hugsa að nú ganga t.a.m. breskar og bandarískar konur í fatnaði frá Spíral.“
Flottar íslenskar hárspangir og túrbanar
„Við tókum inn vörur frá Helgu Rún Pálsdóttur, hattagerðarmeistara en hún er mörgum Suðurnesjakonum kunn enda hefur hún tekið þátt í sýningum með þeim stöllum í Spíral. Hún er með flottar nælur, túrbana, smáhatta og spangir. Ein sú allra skrautlegasta er íslenska spöngin en hún ætti að vera skyldueign allra íslendinga sem búa erlendis. Það sem er svo skemmtilegt við hárskrautið frá Helgu er að í því árferði sem nú ríkir og fólk þarf að halda meira í budduna sína má breyta dressinu á örskotsstundu, bara það að fjárfesta í einni spöng eða smáhatt getur gjörbreytt útlitinu. Eins þekkja eflaust allar konur þá tilfinningu að eiga ,,slæman hárdag“ þá er hægt að skella á sig túrban. Málið er leyst og sú sem hann ber er ekki síðri en þær á tískupöllunum í Mílanó, enda túrbanar hátískuvara um þessar mundir.
Það eru einnig fleiri nýjungar á döfinni sem ekki verða gefnar upp strax en afar spennandi verður að fylgjast með.
Það er óhætt að segja að verslunin hafi vakið mikla athygli enda ekki oft sem verslanir gleðja eins augað og þessi gerir,“ segir Ásta Dís.
Verslunin er hin glæsilegasta. Ofar má sjá mynd af Ástu Dís verslunarstjóra og Ólafi Thordersen, stjórnarmanni í Isavia.
Sóley Ragnarsdóttir hjá Isavia og Rannveig Guðmundsdóttir, stjórnarformaður skoða úrvalið í nýju versluninni.
Starfsmenn og stjórnendur voru ánægðir hvernig til tókst með uppsetningu nýju búðarinnar.