Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Ný álgluggaverksmiðja tekur til starfa á Vallarheiði
Miðvikudagur 7. maí 2008 kl. 12:09

Ný álgluggaverksmiðja tekur til starfa á Vallarheiði

Ný álgluggaverksmiðja á Keflavíkurflugvelli skapar nærri tuttugu störf. Nokkrir tugir fyrirtækja eru nú komin með rekstur á gamla varnarsvæðinu. Það er fyrirtækið Formaco sem starfrækir nýju gluggaverksmiðjuna sem er staðsett á verktakasvæðinu í byggingu 2300 á Vallarheiði og vel á annan tug manna vinna við hana og er líklegt að þeim fjölgi á næstunni. Verksmiðjan stefnir að því að auka markaðshlutdeild sína í 40% á næstu þremur árum en um 90% af álgluggum er flutt inn til landsins. Í nýju verksmiðjunni er mjög fullkominn tækjabúnaður og ræsti Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar hana í formlegu opnunarhófi.


Formaco sinnir mikið opinbera geiranum í sinni álgluggaframleiðslu og því hefur samdrátturinn í byggingariðnaði ekki haft teljandi áhrif á rekstur. Ragnar Jóhannsson, forstjóri fyrirtækisins segir framtíðina bjarta því framundan séu ýmsar framkvæmdir á vegum hins opinbera. Nú þegar hefur verið samið um nokkur verk og þá séu á lokastigi viðræður um alla glugga í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík. Aðspurður um mismun á ál og timburgluggum sagði Ragnar að í áli væri meiri möguleiki á að hafa glerfletina stærri vegna burðarþols og hingað til hafi stærri byggingar nær eingöngu notað álglugga. Það hafi hins vegar verið að breytast.


Ástæðan fyrir því að Formaco ákvað að setja upp verksmiðjuna en fyrirtækið hefur flutt inn álglugga í rúman áratug er sú að borið hafi á því að undanförnu að afhendingartímar hafi ekki staðist og því hafi verið ráðist í þessa framkvæmd. Ragnar sagði að staðsetningin á Suðurnesjum hafi m.a. þótt heppileg með tilliti til þess að þar væri fyrir hendi þekking meðal iðnaðarmanna og að þeir hefðu það orð á sér að vera traustir starfsmenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024