Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Norðurál bauð í HS Orku
Þriðjudagur 25. maí 2010 kl. 09:47

Norðurál bauð í HS Orku

Norðurál, sem á álver á Grundartanga og er að byggja annað í Helguvík, sýndi 52,3% hlut Geysis Green Energy (GGE) í HS Orku mikinn áhuga áður en hann var seldur til Magma Energy, segir í frétt Viðskiptablaðsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bauð fyrirtækið í hlutinn en varð að lúta í lægra haldi fyrir Magma. Tilkynnt var um söluna í síðustu viku. Magma greiddi um 6,5 milljarða króna í reiðufé og 6,3 milljarða króna í formi yfirtekins skuldabréfs við Reykjanesbæ fyrir hlutinn. Auk þess verða rúmir þrír milljarðar króna að öllum líkindum greiddir í formi hlutabréfa í Magma , en félagið er skráð á markað í Kanada. Eftir kaupin á Magma 98,5% hlut í HS Orku, en fyrirtækið á jarðvarmavirkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi.

Virkjanirnar framleiða nú um 175 megavött af orku. Samkvæmt fréttatilkynningu sem Magma sendi frá sér í Kanada í kjölfar sölunnar er ætlunin að bæta hratt í þannig að framleiðslan verði um 405 megavött á árinu 2015.


Tóku betra tilboðinu

Alexander K. Guðmundsson, forstjóri GGE, staðfestir að félagið hafi verið að ræða við tvo aðila á síðustu vikum sem sýnt hafi kaupum á hlutnum mikinn áhuga. Hann vill þó ekki segja hver hinn aðilinn var. „Það er orðið um hálft ár síðan að ákveðið var að selja þennan hlut í HS Orku. Við höfum í því samhengi talað við alla þá aðila sem við töldum geta haft áhuga á að kaupa, jafnt hérlendis og að einhverju leyti utan Íslands. Þar með talið eru opinberir aðilar. Á endanum voru það þó tveir aðilar sem sýndu þessu mestan áhuga, voru tilbúnir að styðja fyrirtækið áfram og borga eðlilegt verð. Við tókum síðan betra tilboðinu.“

Ágúst Hafberg, upplýsingafulltrúi Norðuráls, vildi hvorki játa né neita því að fyrirtækið hefði gert tilboð í hlut GGE í HS Orku, segir í frétt Viðskiptablaðsins.