Njarðvíski markvörðurinn og besti vinur hans stofna fatafyrirtæki
„Okkur hefur lengi langað að stofna fatamerki saman en við vorum aldrei með ákveðna hugmynd sem okkur leist vel á. En svo þegar okkur datt í hug að gera fatnað úr lífrænum efnum þá vissum við bara að þetta væri eitthvað sem við vildum gera. Fyrsta framleiðslan sem kynnt var í vor seldist upp á sex klukkustundum og nú erum við að kynna næstu línu,“ segir Pálmi Rafn Arinbjörnsson, atvinnumaður í fótbolta hjá enska úrvalsdeildarliðinu Wolves.
Pálmi og besti vinur hans til tíu ára, Svavar Örn Þórðarson, eru báðir Njarðvíkingar en Svavar er nýútskrifaður úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Pálmi segir að í framleiðslunni sé eingöngu notaður lífrænn bómull og framleiðslufyrirtækið er með svokallaða GOTS vottun sem sýnir að þetta séu bara náttúruleg efni. Með hverri einustu pöntun er einu tré plantað. „Við erum i samstarfi með fyrirtæki sem heitir onetreeplanted. Það er óhagnaðardrifið fyrirtæki sem plantar trjám víða um heiminn. Við stofnuðum fyrirtækið Conscious Street og erum með vefsíðu sem heitir consciousstreet.com. Þar er hægt að kaupa fötin en myndir af framleiðslu númer tvö birtist kl. 18 á vefsíðunni okkar 12. september. Um er að ræða hettupeysu og buxur í stíl.“
Þeir félagar eru með gjafaleik í gangi í tengslum við nýjustu framleiðsluna þar sem í boði eru tvennar peysur og buxur og gjafakort fyrir tvo í Retreat Spa í Bláa Lóninu að ógleymdri áritaðri búningatreyju með nöfnum allra leikmanna Wolves.
„Við erum að pósta á instagrammið hjá okkur, þar er hægt að sjá fötin og taka þátt í gjafaleiknum, instagrammið er Consciousstreetclothing.“
En hver er staðan á þér, markmanninum efnilega sem er á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Úlfunum?
„Ég er að æfa með meistaraflokki Wolves og spila með u21. Ég er fjórði markmaður hjá meistaraflokknum eins og er og stefni auðvitað hærra,“ sagði Pálmi en hann fór til Úlfanna þegar hann var aðeins 15 ára gamall fyrir nokkrum árum.