Netsamskipti ehf og Lína.Net semja
Netsamskipti ehf hefur samið við Línu.Net um tengingu við Internetgátt. Samningurinn kveður á um að koma upp mjög öflugu 100mbit örbylgjusambandi frá Keflavík til Reykjavíkur með viðkomu í fjarskiptamastri við Reykjanesbraut.
Samskiptastaðall kerfisins mun vera hreint IP sem tryggir hraða og stöðuleika sambandsins. Með samningi þessum eru Netsamskipti að tvöfalda öryggi sitt á internetinu þar sem fyrirtækið mun áfram búa yfir núverandi tengingu sinni um önnur burðarnet. "Netsamskipti er ungt og framsækið fyrirtæki byggt á gömlum grunni, sem hefur það að markmiði að veita gæða Internetþjónustu á Suðurnesjum um IP-DSL kerfi og tökum við því vel á móti Netsamskiptum í viðskiptavinaflóru Línu.Nets" sagði Georg Aspelund Þorkelsson, forstöðumaður Viðskiptasviðs Línu.Net við tilefnið. "Lína.Net hf býr yfir öflugri tvítengdri Internet gátt um CANTAT og FARICE sæstrengina til Bandaríkjanna og Evrópu og treystum við því Línu.Net fyllilega sem aðal internetbyrgja okkar" sagði Brynjar Jónsson, stjórnarformaður Netsamskipta við sama tilefni.