Nemendur Skólamatar skilningsríkir með breytingar
Þrír nýir stjórnendur hafa tekið til starfa. Af 120 starfsmönnum Skólamatar eru sjötíu Suðurnesjamenn
„Þrátt fyrir þessar skorður á tímum Covid19 hefur fyrirtækinu þó áfram tekist að bjóða upp á hollan og bragðgóðan mat. Almennt ríkir mikil ánægja með þessar tímabundnu breytingar og nemendur skilningsríkir og kátir með tilbreytinguna,“ segir Jón Axelsson, framkvæmdastjóri hjá Skólamat ehf. sem fagnaði nýlega sínu 20. starfsafmæli. Það hefur á undanförnum misserum gengið í gegnum nokkrar jákvæðar breytingar. Fyrirtækið hefur verið í stöðugum vexti og skólaárið 2019-2020 er þeirra stærsta starfsár til þessa. Í vetur hefur Skólamatur þjónustað allt að 12.500 manns í hádegismat og um 7.000 manns í öðrum máltíðum dagsins.
Hjá Skólamat starfa nú um 120 starfsmenn og þar af 70 á Suðurnesjum. Á síðustu mánuðum hafa verið gerðar breytingar á stjórnendateymi fyrirtækisins og þrír nýjir starfsmenn bæst við stjórnendahópinn.
Áskorun í þróun nýrra rétta
Rúnar Smárason var ráðinn sem yfirmatreiðslumaður Skólamatar í nóvember 2018. Rúnar starfaði áður sem aðstoðar veitingastjóri á veitingasviði IKEA. Rúnar er 48 ára, þriggja barna faðir í sambúð með Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur. Þau búa í Garðabæ. „Starf mitt sem yfirmatreiðslumaður er mjög fjölbreytt. Ég sé um allan daglegan rekstur á eldhúsinu og sérfæðiseldhúsinu. Í því felst meðal annars að huga að uppskriftunum, sinna gæðamálum, innkaupum og samskiptum við birgja. Við höfum gert miklar breytingar á síðasta ári með það að markmiði að auka gæði hráefnanna sem við erum að nota. Við erum alltaf að leita leiða til þess að auka gæðin og bæta þjónustuna til viðskiptavina okkar“ segir Rúnar Smárason og bætir við að stærsta áskorunin í starfinu sé að þróa nýja rétti sem eru til þess fallnir að henta börnum í leikskóla jafnt sem elstu bekkjum grunnskólanna.
Fjölbreytt og lifandi starf
Sólmundur Einvarðsson hóf störf sem lagarstjóri hjá Skólamat í maí 2019 en tók við stöðu rekstrarstjóra í ágúst síðastliðinn. Sólmundur er 37 ára. Hann er þriggja barna faðir, í sambúð með Elísabetu Sigurðardóttur og eru þau búsett í Garðinum. „Þetta er ótrúlega fjölbreytt og lifandi starf. Mín helstu verkefni eru að sinna daglegum rekstri fyrirtækisins, innkaupum, birgðahaldi og lagerstýringu. Ég skipulegg líka hvaða magn við sendum frá okkur og hef yfirumsjón með akstrinum. Það er alltaf nóg að gera og alls kyns tilfallandi verkefni koma upp sem þarf að ganga í.“ segir Sólmundur.
Sólmundur segir að stærsta verkefnið sé að efla og bæta starfsemina í heild. „Við erum stöðugt að úthugsa hvernig við getum þróast, bæði innanhúss hjá okkur og hvernig við getum bætt þjónustuna við okkar stóra viðskiptahóp. Við erum að finna leiðir til þess að geta viðhaldið og bætt gæðin og aukið fjölbreytnina í þjónustunni okkar. Það er ærið verkefni, en sem betur fer starfar frábær hópur fólks hjá Skólamat. Allir starfsmenn leggjast á eitt og vinna saman til þess að þetta verkefni geti orðið að möguleika.“
Úr háloftunum í nýtt starf í samkomubanni
Í mars hóf Katla Hlöðversdóttir störf sem markaðsstjóri hjá Skólamat. Katla er 29 ára gömul Suðurnesjamær. Hún er viðskiptafræðingur og er að ljúka MS gráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands. Katla starfaði áður sem flugfreyja hjá Icelandair. Kötlu býður fjöldi spennandi verkefna en hún mun leiða sölu- og markaðsstarf Skólamatar.
„Ég er ótrúlega spennt fyrir nýja starfinu og þeim áskorunum sem því fylgir. Ég tók við nýja starfinu á svolítið sérstökum tíma, en ég hóf störf 16 .mars, sama dag og samkomubannið gekk í gildi. Það var aðdáunarvert að sjá hversu vel fyrirtækinu gekk að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Samstaðan í fyrirtækinu er til fyrirmyndar og allir starfsmenn eru ákveðnir í því að finna leiðir til þess að takast á við þessa krefjandi tíma á sem bestan hátt.
Leiðarljós mitt í nýju starfi verður meðal annars að kynna þjónustu Skólamatar enn frekar fyrir viðskiptavinum okkar. Við erum mjög stolt af starfseminni okkar og því að vera að bjóða nemendum upp á hollan og ferskan mat sem er eldaður frá grunni. Ég er afar lánsöm að vera orðin hluti af þessu frábæra fyrirtæki sem Skólamatur er og hlakka mikið til komandi tíma,“ segir Katla Hlöðversdóttir.
Vegna aukinna umsvifa hefur þurft að bæta við bifreiðum og stækka húsnæði Skólamatar. Í vetur hafa verið keyptir tveir Benz Sprinter sendibílar. Bílafloti fyrirtækisins telur nú átta sendibíla með vörulyftu og tvo minni sendibíla sem sjá um að koma matnum hratt og örugglega milli staða.
Lager fyrirtækisins var stækkaður í vetur um 150 m2 og nú í janúar var húsnæði fyrir vörudreifingu stækkað um 170 m2. Þar var útbúin sérstök kæliaðstaða fyrir grænmeti og ávexti. Mikil aukning hefur orðið í neyslu nemenda á ávöxtum og grænmeti. Nemendum stendur alltaf til boða úrval grænmetis og ávaxta með hádegismatnum og í ákveðnum sveitafélögum er boðið upp á ávexti og grænmeti í morgun- og síðdegisnesti. Skólamatur starfar því núna í 1.700 fermetra húsnæði á Iðavöllum 1 og 3 í Reykjanesbæ.
Gjörbreyttir starfshættir á veirutímum
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar segir að takmörkunin á skólahaldi sem hefur verið í gildi undanfarnar vikur hafi sett mark sitt á starfsemi Skólamatar. Fyrirtækið hefur þurft að gjörbreyta sínum starfsháttum til þess að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Flest skólamötuneytin eru lokuð og sem stendur er ekki hægt að bjóða upp á hefðbundinn heitan mötuneytismat.
Þrátt fyrir óvissuástandið þessa dagana eru að sögn Jóns mörg spennandi verkefni framundan hjá Skólamat.
„Undanfarin sumur hefur mikil aukning orðið í því að leikskólar fá tímabundna þjónustu frá Skólamat, til að leysa starfsfólk mötuneyta af í sumarfríi eða öðrum forföllum. Þá hefur líka færst í vöxt að boðið sé upp á heita máltíð á leikjanámskeiðum og öðrum viðburðum á sumrin. Sumarstarfsemi Skólamatar hefur því verið í vexti eins og önnur verkefni.
Næsta stóra verkefnið hjá Skólamat er þátttaka í útboði fyrir skólamáltíðir leik- og grunnskóla á Seltjarnarnesi. Gangi það vel gæti það leitt til aukinna verkefna og vonandi skapað fleiri störf hér á Suðurnesjum.“
Skólamatur í fimmtíu skóla
Allar máltíðir Skólamatar eru forlagaðar í framleiðslueldhúsum fyrirtækisins í Reykjanesbæ og þaðan eru þær svo sendar á 50 leik- og grunnskóla í sex mismunandi sveitafélögum þar sem lokaeldun fer fram. Fyrirtækið rekur tvö aðskilin framleiðslueldhús en í öðru þeirra fer fram framleiðsla á sérfæði fyrir þá viðskiptavini sem geta ekki, sökum ofnæmis, óþols eða annarra sérþarfa, neytt matar af matseðli. Ávallt er reynt að gæta þess að bjóða upp á mat sem er líkastur þeim mat sem er á almenna matseðlinum þann daginn.